Er öryggi sjómanna stefnt í hættu?

Deila:

Flugvélar og þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið eitt mikilvægasta öryggistæki sjómanna í áratugi en gæslan tók sína fyrstu flugvél í notkun árið 1955 og svo  þyrlu miðjum sjöunda áratugi síðustu aldar. Flugmenn Gæslunnar eru sérþjálfaðir til björgunar og leitar og standast ítrustu kröfur og staðla til að fljúga sjúkra- og björgunarflug. Reynsla og þekking eru vitaskuld lykilatriði við björgun og þurfa flugmenn Gæslunnar að halda uppi stífri þjálfun út allan sinn starfsferil.

Flugmenn Landhelgisgæslunnar standa þó í ströngu þessa dagana en þeir hafa nú verið samningslausir í tvö ár. Hingað til hafa samningar snúist fyrst og fremst um starfsaldurslista, sem Samninganefnd ríkisins krefst að flugmenn afnemi. „Þessu neita flugmenn Landhelgisgæslunnar því starfsaldurslistar eru eitt rótgrónasta úrræði flugrekenda og flugmanna til að tryggja flugöryggi og er ein af burðarsúlum heilbrigðrar öryggismenningar,“ segir Sonja Backman, lögfræðingur Félags íslenskra atvinnuflugmanna, sem situr í samninganefnd flugmannanna.

Sonja Backma

Flugmenn telja vegið að flugöryggi

Sonja segir að í raun hafi engar röksemdafærslur fylgt frá samninganefnd ríkisins, aðrar en þær að allir ríkisstarfsmenn skuli falla undir sama hatt og vísar samninganefndin í nýlegan gerðardóm varðandi kjarasamninga flugvirkja og telja starfsaldurslista þar með ólögmæta. Á móti benda flugmenn Gæslunnar á að starfsaldurslistar flugmanna byggi á öðrum forsendum en annarra stétta: þeir byggja fyrst og fremst á forsendum flugöryggis og vel hægt að tryggja tilveru þeirra þrátt fyrir umræddan gerðardóm.

Þá hefur samninganefnd ríkisins ekki sýnt fram á annað kerfi sem tryggi flugöryggi með sama hætti og starfsaldurlistarnir gera. Þrátt fyrir að lög um opinbera starfsmenn tryggi að ákveðnu leyti starfsöryggi þá tryggja þau ekki flugöryggi. Sonja bendir á að flugmenn og flugfélög um allan heim viðurkenni starfsaldurslista sem eitt mikilvægasta atriðið til að tryggja flugöryggi. „Þeir halda utan um flugmanninn við erfiðar ákvarðanir og tryggja að sanngirnismenning (e. just culture) sé viðhöfð – en hún er fest í lögum hérlendis. Þannig er tryggt að flugmenn geti til dæmis tilkynnt um atvik, svo hægt sé að læra af þeim eða lagfæra, án ótta við refsingu.“

Starfsaldurslistar eru gagnsætt öryggiskerfi

Við hljótum öll að vera sammála um að flugöryggi er aldrei mikilvægara en þegar kemur að flugmönnum Landhelgisgæslunnar sem fljúga í aðstæðum sem enginn annar flýgur í og leggja líf sitt í hættu við björgunaraðgerðir á landi og sjó,“ segir Sonja en þyrlur Gæslunnar skipta sköpum fyrir flota landsins sem reiðir sig á þær ef eitthvað kemur upp á. „Flugmenn bera ábyrgð á bæði loftfarinu sem þeir fljúga á og lífum allra um borð. Við höfum því miður fjölmörg dæmi um slys og atvik í flugi sem má rekja beint til þess að flugmenn hafi flogið of þreyttir, veikir eða jafnvel í ótryggum aðstæðum vegna þess að þeir voru undir þrýstingi frá flugrekandanum – fá hótanir um að vera refsað eða jafnvel reknir. Rannsóknir hafa þannig sýnt beina tengingu á milli starfsaldurslista og flugöryggis. Starfsaldurslistarnir verja flugmenn svo þeir geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir út frá flugöryggi.

Starfsaldurslistar tryggja einnig að flugmenn verði ekki flugstjórar fyrr en þeir hafa hlotið til þess tilhlíðlega reynslu, þó þeir verði vitaskuld að uppfylla fleiri skilyrði og standast próf. Þannig koma listarnir í veg fyrir frændhygli og spillingu. Í svona litlum flugmannahópi í jafn mikilvægum störfum er afar mikilvægt að koma í veg fyrir slíkt og allan ágreining um stöðuveitingar.“

Hún bætir við að til að haldast á starfsaldurslista þurfi flugmenn meðal annars að standast starfsgetumat og próf í flughermi á hálfs árs fresti og standast ítarlega læknisskoðun á hverju ári. Það dagar því enginn uppi á starfsaldurslista sem hefur ekki lengur erindi í starfið.

Sonja bendir á að auk þess að vera án samnings starfi flugmenn undir enn meira álagi en starfið krefst því Landhelgisgæslan keyri flugdeildina í raun á of fáum flugmönnum til að halda þjálfunar- og launakostnaði niðri: „Landhelgisgæslan hefur sjálf sagt frá því að þriðjung hvers árs vantar flugmann í áhöfn og eru flugmenn eru orðnir langþreyttir á samningstöfum og viðmóti ríkisins gagnvart þeim þrátt fyrir að þeir bregðist nánast án undantekninga við því ástandi sem skapast reglulega innan flugdeildarinnar og hafa einnig gert það undanfarið þrátt fyrir að vera að fara inn í sitt þriðja ár samningslausir. Flugmenn koma til vinnu á frídögum og orlofum svo Landhelgisgæslan geti sinnt sínum lögboðnu skyldum og virðist sem svo að enginn átti sig á því að ef þess nyti ekki við myndi árlegur kostnaður ríkisins hlaupa á hundruðum milljóna til að geta veitt sömu þjónustu“

Kjör undir markaðslaunum hvetur til starfsmannaveltu

„Í samningstilboði ríkisins er útþynntur og sundurslitinn samningur sem hentar starfseminni afar illa. Núverandi samningur, sem rann út árið 2019, er mun ítarlegri og sérsniðinn að rekstri gæslunnar,“ segir Sonja. „Hann hefur gagnast vel í tugi ára og hefur svo sannarlega átt stóran þátt í að byggja upp og vernda þann háa gæðastaðal sem viðhafður er í dag. Flugmenn vara við þvi að verið sé að þvinga fram illa unninn og vanhugsaðan samning sem hentar starfseminni ekki á nokkurn hátt.“

Margt bendir til þess að samningurinn sem í boði er leiði til þess að kjör flugmanna Landhelgisgæslunnar fari undir þau kjör sem ganga á almennum markaði. Það mun leiða til starfsmannaveltu með tapi á tuga ára reynslu og þekkingu við björgunarstörf ásamt því að auka þjálfunarkostnað gríðarlega.

„Laun flugmanna Landhelgisgæslunnar voru lengst af bundin markaðslaunum með lögum en það var reyndar afnumið árið 2006. Þetta var gert því flugmenn Gæslunnar hafa ekki verkfallsrétt. Tengslin við markaðslaun hafa þó haldið hingað til, en ótækt er að verja hundruðum milljónum króna í að þjálfa björgunarflugmann til þess eins að hann sjái sig tilneyddan til að ráða sig annað til að fá sæmileg laun,“ segir Sonja og bendir á að launakostnaður sé einungis lítið brot af heildarkostnaði við hvern flugmann, en lang stærsti kostnaðurinn er þjálfunarkostnaður til að halda uppi þeim staðli sem við krefjumst til að tryggja öryggi meðal annars sjófarenda. Gert er ráð fyrir því að hver flugmaður fljúgi að lágmarki 200 tíma á ári til að viðhalda hæfni til að fara af stað í öllum veðrum.

Með því að fara undir markaðslaun er ljóst að starfsmannavelta mun aukast hjá flugmönnunum 16. Með því tapast hundruðir milljóna í þjálfun sem er dýrt fyrir skattgreiðendur – en það sem er enn dýrara er að við töpum mikilvægri þekkingu og reynslu sem við viljum að haldist innanbúðar. Það jafnast ekkert á við áralanga reynslu og þjálfun þegar kemur að flugi og björgun við verstu aðstæður.“

Deila: