-->

Erfiður en góður túr

„Þetta var erfiður en góður túr. Gengið eru okkur hagstætt og aflinn var mikill. Þetta er stærsti túrinn hjá skipum í eigu Þorbjarnar. Verðmætið var  var 337,6 milljónir króna fob. og aflinn upp úr sjó 752 tonn. Þetta fór fram úr björtustu vonum miðað við innkaupamiðann, sem maður hafði. Yfir hávertíðina hefði maður venjulega verið hér á Selvogsbankanum, en  þar sem ýsukvótinn og gulkarfakvótinn er það lítill, vorum við bara komnir út í horn Við fórum því austur og reyndum við grálúðu og vorum aðeins að  juða þar í í lúðu þannig að þetta bjargaðist í restina á túrnum.“

Þetta segir Bergþór Gunnlaugsson, skipstjóri á frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni í þessari veiðiferð í samtali við Auðlindina. Togarinn er gerður út af Þorbirni hf. í Grindavík og kom í land á þriðjudagskvöld.

Tómar brælur og bölvað vesen

„Við erum með alveg frjálsa sókn í rauðan karfa og þessar erfiðu tegundir, en það er bara að fá þær.  Þetta var alveg rosalega erfiður túr hvað varðar veður. Maður bjóst við því að vorið væri að koma, en þetta eru búnar að vera tómar brælur og bölvað vesen. Þannig að þessi árangur fór fram úr björtustu vonum. Það ætti svo í framtíðinni að vera hægt ná svona fleiri góðum túrum, en það var mjög ánægjulegt að geta rofið þennan múr. Hann er búinn að standa ansi lengi hjá Þorbjarnarskipunum, alveg síðan í úthafinu. Gnúpurinn átti þetta með, 301 milljón minnir mig að það hafi verið, en það var í úthafskarfa og hér á heimamiðum.

Blandaður afli

Við vorum líka að koma úr slipp, vélarupptekt og lagfæringum á vinnsludekki.  Við vorum í helvítis brasi fyrstu vikuna. Þegar við fórum út á sjó og tókum fyrsta holið, virkuðu frystitækin ekki. Við vorum í miklu ströggli að fá þetta allt til að snúast eftir stoppið. Við þurftum því að fara inn til Hafnarfjarðar og láta laga þetta. Svo fórum við bara af stað á fullt stím og það gekk vel síðan. Við byrjuðum hérna suðvestan við landið, í Jökuldýpinu í svona blönduðum veiðum. Þetta er mjög blandaður afli. Við vorum með eitthvað um 240 tonn af þorski. Við máttum ekki taka nema 50 tonn af ýsu, en vorum með um 68 tonn af henni og svo um 185 tonn af ufsa. Við máttum taka 80 tonn af gullkarfa en það urðu rúmlega 100 tonn. Maður var að reyna að halda sig nálægt þessum mörkum sem sett voru um tegundir.

Það er farið að skera svolítið niður í gullkarfanum og ýsu því að þessar tegundir eru út um allt, Gullkarfinn sem við vorum með núna til dæmis er bara meðafli. Við erum því að taka þorskpoka með stærri riðil bara  til að reyna að losna við þetta í næsta túr, reyna að minnka það sem við erum að fá af gullkarfa og ýsu. Við viljum helst fá þorsk, ufsa, grálúðu og rauðan karfa,“ segir Bergþór.

Fólk með grímur og gúmmíhanska

Bergþór segir svo í lokin að ekki veiti af góðum fréttum á tímum kórónaveirunnar. „Við erum að koma í land núna eftir 34 daga og maður er að koma heim í allt annað umhverfi en maður fór úr. Maður veit varla hvernig maður á að snúa sér. Maður sér bara fólk með grímur og gúmmíhanska og ég sé ekki annað en maður verði hálfpartinn í sjálfskipaðri sóttkví þar til maður fer út á sjó aftur. Það verður að hafa varann á. Maður fer  ekki út á sjó með smit.“

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Það gefur á bátinn

„Útflutningur á sjávarafurðum hefur dregist verulega saman það sem af er ári, borið saman við sama tímabil í fyrra. Samdráttin...

thumbnail
hover

Venus í vélarupptekt

Vinna er hafin við reglubundna upptekt á aðalvél uppsjárveiðiskipsins Venusar NS og er verkið unnið í Reykjavík. Venus kom til Rey...

thumbnail
hover

Háafell fær leyfi til aukins eldis

Matvælastofnun hefur veitt Háafelli ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi í samræmi við lög um fiskeldi. Matvælasto...