Eyjarnar lönduðu í dag

135
Deila:

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE komu báðir til heimahafnar í Vestmannaeyjum í morgun til löndunar. Túrinn hjá skipunum var stuttur og var afli Bergeyjar rúm 50 tonn og Vestmannaeyjar góð 40 tonn.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Egil Guðna Guðnason skipstjóra á Vestmannaey og spurði fyrst hvort ekki væri um óvenju stuttan túr að ræða hjá skipunum. „Jú, þetta var heldur stuttur túr.  Skipin fóru út á mánudag eftir hádegi að aflokinni þjóðhátíðarhelgi og farið var austur að Ingólfshöfða. Nú er komið að lokum kvótaárs og þá þarf gjarnan að leggja áherslu á að veiða ýmsar tegundir en forðast aðrar. Hjá okkur var allt of mikil ýsa þar sem veiði hófst, en ýsukvótinn er uppurinn. Við þurftum því að færa okkur og reyna að eltast við aðrar tegundir sem gekk misjafnlega. Annars er ekkert hægt að kvarta því við vorum bara einn og hálfan sólarhring að veiðum, en megnið af aflanum kom þó á örfáum klukkutímum.

Þetta er ekkert nýtt því síðustu dagar kvótaárs eru oft skrýtnir. Þá er verið að veiða þær tegundir sem eftir standa og gjarnan langt siglt til að leita þær uppi. Það hefur gengið afar vel hjá okkur að veiða ýsu á kvótaárinu og ýsa virðist vera út um allan sjó, en nú er ýsukvótinn búinn og þá verða menn að leita að öðrum tegundum og vonandi á það eftir að ganga vel,“ segir Egill Guðni.

Bæði Vestmannaey og Bergey halda til veiða á ný í fyrramálið.
Ljósmynd Þorgeir Baldursson

 

Deila: