Færeyingar gagnrýndir vegna höfrungadráps

125
Deila:

Færeyingar liggja nú undir þungu ámæli dýraverndunarsinna eftir að yfir fjórtán hundruð tannhvalir af höfrungaætt voru veiddir við Austurey síðastliðinn sunnudag. Formaður færeyska hvalveiðiráðsins segir Færeyingum sjálfum mjög brugðið. ruv.is greinir frá þessu.

Í frétt breska ríkisútvarpsins (BBC) af málinu kemur fram að þetta sé metfjöldi dýra sem felldur er við grindadráp í Færeyjum. Að stærstum hluta hafi verið um að ræða leiftur, lítinn og grannvaxinn tannhval af höfrungaætt. 

Að meðaltali eru veiddir um 600 grindhvalir á ári en mun færri leiftrar, aðeins veiddust 35 slíkir á síðasta ári.

Veiðarnar eru skipulagðar þannig að sem flestir geti tekið þátt og hafa um aldir verið mikilvægur hluti menningar Færeyinga. Þeir sem fylgjandi eru veiðunum segja þær einnig vera afar sjálfbærar en dýraverndunarsinnar segja þær ónauðsynlegar og ómannúðlegar. 

Olavur Sjurdarberg, formaður færeyska hvalveiðiráðsins, segir í samtali við BBC að umfang grindhvaladrápsins á sunnudag hafi verið mistök. Í upphafi var talið að vaðan teldi aðeins um tvö hundruð dýr, raunverulegur fjöldi hafi uppgötvast þegar drápið hófst.

Olavur var ekki viðstaddur veiðarnar en segir að einhver hefði átt að grípa í taumana og að það sé mörgum Færeyingum áfall hve mörg dýr voru felld. Engin lög hafi þó verið brotin við veiðarnar.

Það áréttar Sjurdur Skaale, þingmaður Færeyinga á danska þinginu en hann segir vinsældir grindadrápsins dvínandi. Könnun á vegum færeyska ríkisútvarpins leiðir í ljós að yfir helmingur er andvígur veiðum á tannhvölum af höfrungaætt en í annarri könnun kom fram að yfir áttatíu af hundraði eru fylgjandi grindhvalaveiðum. 

Deila: