Farsælast að stjórna grásleppuveiðum með aflamarki

94
Deila:

Stjórn smábátafélagsins Bárunnar í Hafnarfirði og Garðabæ hefur sent frá sér samþykkt varðandi grásleppumál, en þar er lagt til að grásleppan verði sett í kvóta. Samþykktin er svohljóðandi:

„Stjórn Bárunnar telur núverandi stjórnkerfi grásleppuveiða óboðlegt.  Það er ill gerlegt að stjórna heildarafla samkvæmt ráðgjöf Hafró með sóknardögum.  Reynslan hefur sýnt sig að afli er mjög misjafn milli ára.  Að sjómenn geti átt von á að veiðarnar séu stöðvaðar fyrirvaralítið þegar heildarúthlutun er náð er mjög óhagkvæmt og með öllu óásættanleg stjórnun veiðanna.

Verð fyrir grásleppuhrogn fer mjög eftir framboði hverju sinni.  Of mikið framboð lækkar verð hrognanna verulega.  Byggt hefur verið upp samstarf milli þeirra þjóða sem veiða hrognkelsi og ber okkur að halda í það samstarf.  Gert er ráð fyrir að markaðurinn þurfi um 10-12 þúsund tunnur árlega frá Íslandi, sem gera um 5.000 – 6000 tonn af grásleppu upp úr sjó.

MSC vottun veiðanna er mjög mikilvæg og þýðir almennt hærra afurðaverð.  Vottun veiðanna fæst ekki ef veitt er umfram ráðgjöf Hafró og eða meðafli, fuglar og spendýr er umfram viðmið.

Stjórn Bárunnar telur farsælast að stjórna grásleppuveiðum með aflamarki eins og hefur orðið með aðrar fisktegundir við Íslandsstrendur.

Með aflamarki eru líkur á að takist að hámarka verðmæti auðlindarinnar betur og að aukið hagræði fyrir þá sem stunda veiðarnar náist.“

 

Deila: