-->

  Ferðaþjónustan stærri en sjávarútvegur í landsframleiðslu

 

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu var 8,1% árið 2016. Hlutur greinarinnar hefur aukist hratt á síðustu árum samfara miklum vexti í greininni. Til samanburðar var hlutur greinarinnar 3,5% árið 2009 og hefur hækkað á hverju ári síðan. Bráðabirgðatölur um hlut ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu fyrir árið 2017 verða birtar 20. júlí en útfrá vexti greinarinnar á síðasta ári, sem var vel umfram hagvöxt, má gera ráð fyrir að hlutur greinarinnar í landsframleiðslu hafi verið umtalsvert meiri í fyrra en árið 2016. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbanka Íslands og segir þar ennfremur:

Fyrsta skiptið yfir sjávarútvegi

Hlutur ferðaþjónustu fór árið 2016 í fyrsta skiptið upp fyrir hlut fiskveiða og -vinnslu í landsframleiðslu. Hlutur fiskveiða í landsframleiðslu nam 4,6% en hlutur fiskvinnslu 2,6% og samanlagður hlutur greinanna tveggja var því 7,2%.

Sjávarútvegur og fjármálaþjónusta hafa gefið verulega eftir á síðustu árum

Þessi mikli vöxtur í ferðaþjónustu á síðustu árum hefur aukið vægi greinarinnar í landsframleiðslu á kostnað sumra annarra greina, þ.m.t. sjávarútvegs. Hlutur sjávarútvegs náði ákveðnu lágmarki árið 2007 þegar hann fór niður í 5,6%. Þá hafði hluturinn leitað nokkuð niður á við allt frá árinu 2001 þegar hann nam 12,2%. Samdráttinn milli áranna 2001 og 2007 má skýra að hluta til með uppsveiflu í öðrum greinum s.s. fjármálaþjónustu, samfara miklum uppgangi í bankastarfsemi. Þannig fór hlutur fjármálaþjónustu án vátrygginga og lífeyrissjóða úr 4,9% árið 2001 og upp í 11,3% árið 2007. Frá árinu 2007 fór hlutur sjávarútvegs að aukast á ný og náði hann tímabundnu hámarki í 10,4% árið 2011. Síðan fór hlutur sjávarútvegs aftur að dragast saman og hefur hann leitað stöðugt niður á við síðan og mældist 6,8% árið 2017.

Hlutur fjármálaþjónustu dróst verulega saman í fjármálakreppunni. Hlutfallið náði hámarki í 11,3 árið 2007 en hefur leitað niður á við síðan og var kominn niður í 4,2% í fyrra sem er lægsta hlutfall greinarinnar síðan árið 1999.

Meiri munur á útflutningstekjum en hlut í landsframleiðslu

Hlutur einstakra greina í landsframleiðslu segir til um framleiðsluvirði þeirra, þ.e. þann virðisauka sem verður til í greinunum. Áhrif greinanna geta hins vegar verið mismunandi eftir því hvaða hagstærðir eru skoðaðar. Sé t.d. horft til útflutningstekna er mun meiri munur á ferðaþjónustu og sjávarútvegi en þegar hlutur þeirra í landsframleiðslu er skoðaður. Umfang útflutningstekna hefur mikil áhrif á gengi krónunnar og þannig á verðbólgu og kaupmátt íslenskra heimila. Á síðasta ári námu útflutningstekjur íslenskrar ferðaþjónustu 503 mö.kr. en útflutningstekjur sjávarútvegs námu 197 mö.kr. Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar voru því 155% meiri en útflutningstekjur sjávarútvegs. Árið 2016 var þetta hlutfall 99%.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Yfir 50 sóttu um tvö störf...

Síldarvinnslan auglýsti nýverið tvær stöður, rekstrastjóra uppsjávarfrystingar og rekstrastjóra útgerðar. Attentus-mannauður og...

thumbnail
hover

Samdráttur í útflutningi sjávarafurða

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var rúmir 23,7 milljarðar króna í maí, sem er í samræmi við bráðabirgðatölur Hagstofunnar ...

thumbnail
hover

Fylgir ráðgjöf Hafró

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla í íslenskri...