Fínasta veiði á milli þess sem brælir

Deila:

,,Við erum komnir aftur norður á Hala. Óveðrið olli því að við hrökkluðumst af Vestfjarðamiðum. Það var ákveðið að taka millilöndun í Reykjavík og bíða af sér veðrið en fara svo aftur út þegar það gengi niður,“ segir Árni Gunnólfsson, skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE. Árni og hans menn urðu líkt og allir að forða sér undan áhrifum sprengilægðarinnar sem gekk yfir landið og olli stórtjóni á þriðjudag og miðvikudag. Rætt er við hann á heimasíðu Brims.

Árni segist hafa verið á Halamiðum þegar einsýnt varð að ekkert venjulegt óveður var í vændum.

,,Það voru komnir 32 metrar á sekúndu þegar við hífðum og þar sem aflinn hafði verið góður var ákveðið að fara í millilöndun í stað þess að leita vars og bíða af sér veðrið,“ segir Árni en það höfðu skipverjar á Vigra þó reyndar gert einu sinni í túrum en þá var skipið í vari undir Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi í um sólarhring.

,,Aflinn var annars mjög góður og það er fiskur að skila sér inn á öll veiðisvæðin. Þorskurinn er kominn aftur og við fengum góða þorskveiði á svæðinu austan við Strandagrunn og vestur á Halann. Við vorum með um 330 tonna afla upp úr sjó eftir átta sólarhringa og þar af fór einn í að liggja í vari.“

Að sögn Árna er enn slæmt sjólag á miðunum en hann segir að veðrið sé að ganga niður. Spáin er góð, a.m.k. fram á sunnudag.

,,Við fórum frá Reykjavík síðdegis í gær og tókum fyrsta kastið hér á Halanum upp úr hádegi í dag. Þá voru 23 metrar á sekúndu en maður finnur að veðrið er að ganga niður. 15 til 18 metrar á sekúndu er fínt en allt yfir það getur valdið vandræðum. Við erum núna aðallega að leita að ufsa og mér sýnist við fá frið til þess fram á sunnudag ef marka má veðurspána. Gangi hún eftir verðum við sennilega að fara eitthvað suður eftir. Um það er þó of snemmt að spá. Hið eina, sem liggur ljóst fyrir, er að við eigum að vera í landi í Reykjavík 22. desember nk.,“ sagði Árni Gunnólfsson.

 

 

Deila: