-->

 Fiskeldi skilaði tæplega 7.000 tonnum í fyrra

Framleiðsla úr fiskeldi til slátrunar stóð nánast í stað á milli áranna 2012 og 2013. Alls var slátrað 6.887 tonnum af eldisfiski árið 2013 og uppskera kræklings var um 166 tonn. Árið 2013 reyndist fiskeldisgreininni að flestu leyti hagfellt og án nokkurra óvæntra áfalla. Flest áform um nýliðun og aukin umsvif reyndust raunsæ en hafa þó ekki öll gengið eftir sökum hnökra sem átt hafa sér stað við ferli nýrra umsókna um rekstrarleyfi. Þó gekk eftir fyrirhuguð innkoma tveggja nýrra fyrirtækja sem hófu eldi á liðnu ári, annað í eldi flúru á Reykjanesi og hitt í laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum.
Frá þessu er sagt í nýútkomnum Fiskeldisfréttum, en þar er vitnað í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma. Þar segir svo um framleiðslu úr fiskeldi á síðasta ári.
Laxeldi: Framleidd voru um 3.000 tonn af laxi og var lítilsháttar aukning á milli ára.
Bleikjueldi: Framleidd voru um 3.200 tonn af bleikju og var lítilsháttar aukning á milli ára.
Regnbogasilungseldi: Samdráttur varð í framleiðslu og nam hún um 100 tonnum og er það rakið til seinkunar á slátrun.
Þorskeldi: Þorskseiðaeldi hefur verið í lágmarki síðastliðin tvö ár. Umfang áframeldis dróst saman og áhugi fyrir þorskeldi stöðugt á undanhaldi. Af þeim 482 tonnum sem slátrað var af þorski árið 2013 voru um 114 tonn úr aleldi.
Lúðueldi: Eldi lúðu lauk formlega á árinu.
Sandhverfueldi: Eldi sandhverfu heyrir brátt sögunni til.
Senegalflúra: Í lok ársins höfðu verið flutt inn tæp milljón smáseiði (0,25 gr.) frá Spáni. Reikna má með að slátrun og útflutningur afurða hefjist í byrjun vetrar 2014.
Hekluborri: Um 800 kg voru framleidd af hekluborra (beitarfiski). Ekki er líklegt að stofninn verði nýttur til manneldis að neinu ráði, frekar er horft til þess að hann þjóni til framleiðslu á smáseiðum til sölu og dreifingar því eftirspurn er eftir ungviði til áframeldis víða erlendis.
Sæeyra: Tilraunareldi er á þremur tegundum, þ.e.a.s. rauð eyru (Haliotis rufescens) sem komu upprunalega frá Kaliforníu 1988, græn eyru eða Ezo (Haliotis discus hannai) sem komu fyrst frá Japan 1996 og loks svokölluð Kuro (Haliotis discus discus) sem flutt voru fyrst til landsins frá Japan 2011.
Sæbjúgu: Tilraunareldi er á sæbjúgu (Stichopus japonicus) sem fyrst voru flutt inn frá Japan árið 2010.
Kræklingarækt: Uppskera kræklings var um 166 tonn, þar af um 49 tonn úr hreinni ræktun.
Ostrurækt: Ræktun hófst í fyrsta sinn á Íslandi á liðnu ári þegar heimild fékk til innflutnings á risaostru (Crassostrea gigas) frá eldisstöð á norður Spáni. Reikna má með að það taki 4-5 ár að ná ostrunni upp í markaðsstærð (12-14 cm) og ef vel tekst til gæti fyrsta uppskera átt sér stað 2017 eða 2018.
Innflutningur eldisdýra: Auk sótthreinsaðra regnbogasilungshrogna frá Danmörku var einnig veitt heimild til innflutnings á lifandi sæeyrum frá Japan, ostrum frá Spáni, hekluborraseiðum frá Kanada og senegalflúruseiðum frá Spáni.
Bólusetning: Bólusett voru rúmlega 5 milljónir laxa og bleikjuseiða.
Úttekt: Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði úttekt á eftirliti dýralæknis fisksjúkdóma á árinu og kom hún vel út eins og sjá má á skýrslu úttektaraðila.