Fiskeldissjóður auglýsir styrki til sveitarfélaga

Deila:

Til úthlutunar úr Fiskeldissjóði á þessu ári eru  tæpar 248 milljónir króna og hefur verið auglýst eftir umsóknum úr sjóðnum. Honum er ætlað að veita sveitarfélögum styrki til uppbyggingar innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.

Samkvæmt upplýsingum matvælaráðuneytis verður við úthlutun styrkja úr sjóðnum sérstaklega horft til verkefna sem snúa að:

  • Styrkari samfélagsgerð (menntun, menning, íbúaþróun)
  • Uppbyggingu innviða (atvinnulíf, þjónusta)
  • Loftslagsmarkmiðum og umhverfisvernd (fráveita, orkuskipti, vatnsveita)
  • Tengingu við sjókvíaeldi (hafnir, aðstaða í landi)
  • Nýsköpun hverskyns, tengd ofangreindum þáttum.

Framkvæmdir við vatnsveitur, fráveitu, byggingaframkvæmdir og samgöngubætur eru á meðal þeirra innviðaverkefna sem sjóðurinn hefur styrkt í úthlutunum sínum og hvetur ráðuneytið sveitarfélög þar sem sjókvíaeldi er stundað til að sækja um styrk til sjóðsins.

Umsóknarfrestur er til kl. 16:00, mánudaginn 20. febrúar 2023 en sótt er um á vef stjórnarráðsins.

Deila: