-->

Fiskimjölsverksmiðjurnar farnar að vinna

Kolmunnaveiðarnar suður af Færeyjum hafa gengið vel að undanförnu og hafa báðar fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar hafið vinnslu. Bjarni Ólafsson AK kom með um 1.700 tonn til Neskaupstaðar á föstudagskvöld og Börkur NK kom til Seyðisfjarðar með 2.250 tonn á sunnudagsmorgun. Þá kom Beitir NK til Neskaupstaðar í nótt með rúmlega 2.900 tonn.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi í gær við Hafþór Eiríksson rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar og verksmiðjustjóra í Neskaupstað um kolmunnavinnsluna. „Verksmiðjan í Neskaupstað fór í gang á laugardagsmorgun og þetta lofar mjög góðu. Það er góð veiði og skipin koma með gott vel kælt hráefni að landi. Fiskurinn er svolítið farinn að horast á þessum árstíma þannig að það kemur fyrst og fremst mjöl út úr hráefninu, lýsið er afar lítið. En þetta er úrvalsmjöl sem um er að ræða,“ segir Hafþór.

Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri á Seyðisfirði tekur undir með Hafþóri og segir að skipin komi með afar gott hráefni að landi. „Verksmiðjan hér á Seyðisfirði fór í gang í gær. Börkur kom í gærmorgun og það verður lokið við að landa úr honum núna um hádegið. Við erum afskaplega ánægðir með að hefja vinnslu. Hér var tekið á móti einum kolmunnafarmi í janúar en þar áður barst hráefni til okkar í maí. Það eina sem unnið er í verksmiðjunni hjá okkur er kolmunni og við erum því alltaf ánægðir þegar kolmunnaveiðarnar hefjast og þær virðast ganga býsna vel núna,“ segir Eggert Ólafur.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Mast veitir Löxum Fiskeldi nýtt rekstrarleyfi

Matvælastofnun hefur veitt Löxum Fiskeldi ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis í Reyðarfirði í samræmi við lög um fiskeldi. Matvælas...

thumbnail
hover

13 ára háseti með félaga sínum...

Maður vikunnar starfar í þeirri atvinnugrein sem mestur vöxtur er í um þessar mundir og hefur hleypt lífi í margar byggðir sem átt...

thumbnail
hover

Brim tekur þátt í Síminn Cyclothon

Brim tekur þátt í Síminn Cyclothon keppninni sem hófst í gær við Egilshöll. Keppnin er boðhjólakeppni þar sem átta manna lið ...