-->

Fiskuðum mikið og skiluðum miklum verðmætum

„þetta voru gullaldarár eins og hún Þóra mín segir. Erfitt til að byrja með og töluverð áhætta tekin, en skipið malaði fljótlega gull og varð undirstaðan undir velgegni Samherja. Ég var með skipið frá upphafi og í níu ár og okkur gekk mjög vel. Fiskuðum mikið og skiluðum miklum verðmætum. Maður á að þakka það sem vel hefur gengið,“ segir Þorsteinn Vilhelmsson skipstjóri um árin á Akureyrinni EA.

Bræðurnir Þorsteinn og Kristján og frændi þeirra Þorsteinn Már Baldvinsson, keyptu hlutafélagið Samherja 1983. Það átti togarann Guðstein, sem legði hafði í Hafnarfjarðarhöfn mánuðum saman og útgerðin komin í þrot. Þeir náðu samningum við Landsbankann um lánveitingar og fengu ábyrgð Akureyrarbæjar fyrir breytingunum gegn því að verkið yrði unnið í Slippnum  og veðsettu húsin sín. Þeir unnu baki brotni í að undirbúa skipið fyrir breytingu í frystitogara hjá Slippstöðinni á Akureyri. Þeir komu með skipið heim fyrsta maí og voru farnir til veiða í lok nóvember. Þar með hófst ævintýrið.

Guðsteinn kemur til Akureyrar fyrsta maí 1983 og fór í sína fyrstu veiðiferð sem Akureyrin EA í nóvember eftir að skipinu hafði verið breytt í frystitogara.

Gullsteinn

„Þetta leit kannski ekki kræsilega út, þegar við komum með þennan ryðdall eins og sumir sögðu til Akureyrar. Það var eitt sem ég hef oft verið að hugsa um, að þegar við vorum að koma með skipið heim frá Hafnarfirði og vorum komnir austur fyrir  fyrir Horn og  efst í Reykjafjarðarálinn, var Arnar HU þar á veiðum kvöldið 30. apríl. Birgir, sem þá var orðinn skipstjóri á Arnari og ég, töluðum saman og hann kallaði skipið þá Gullstein. Það þótti mér mjög merkilegt, en vænt um það. Hann sagðist vera viss um að skipið yrði að gulli í höndunum á okkur. Það varð svo raunin, það er ekkert hægt að neita því,“ segir Þorsteinn.

Sumarið fór svo allt í að gera skipið klárt fyrir breytingar  í frystitogara, en fyrsta hugsunin hafði reyndar verið að gera hann út á ísfisk fyrir siglinar, en útreikningar sýndu að þá stæði skipið ekki undir sér. Þeir stóðu í þessu frændurnir með fleirum og  svo fór skipið í Slippinn snemma sumars, þar sem framkvæmdir hófust. Þeim var svo lokið í nóvember 1983 og í fyrsta túrinn var farið í lok nóvember. Hann stóð þá fram að jólum. Strax var tekin ákvörðun, sem ekki var algengt á þessum stóru togurum, að vera alltaf heima um jólin. Það var komið heim á aðfangadag undir hádegi og síðan farið út aftur á miðnætti annan eða þriðja í jólum og verið úti yfir áramótin.

„Ég fór sem stýrimaður einn túr með Ebba á Örvari og hans áhöfn um haustið, til þess að kynnast frystitogaramenningu. Það var góður skóli fyrir mig enda miklir snillingar þar um borð.“

 

Konan mín studdi mig frá upphafi

Enn hvernig tóku þínir nánustu því að þú varst að fara úr mjög góðu plássi hjá góðu félagi, ÚA, yfir í allnokkra óvissu?

„Börnin mín voru svo ung þegar þetta var að þau voru ekki mikið að velta því fyrir sér hvaða áhætta fylgdi því að hætta á góðu skipi og fara út í þetta ævintýri. Konan mín studdi mig strax frá upphafi og leist vel á þetta. Pabba og tvíburabróður hans, Vilhelm og Baldvin sem var faðir Þorsteins Más, leist ekki vel á þetta í fyrstu. Það var nú ekki vegna þess að þeir hefðu ekki trú á okkur. En pabbi sagðist hafa séð svo margar útgerðir fara á hausinn á þessum árum og áður þar sem menn misstu allt sitt. Við urðum að setja húsin okkar að veði, maður varð að fórna einhverju og þeir bræður óttuðust að ef illa færi, myndum við missa húsin okkar. Auðvitað hafði maður áhyggjur af því að missa þakið ofan af sér með þungaða konu og mörg börn að auki. Það var heldur ekki gefið að ég fengi pláss aftur hjá ÚA, þar sem ég hafði verið  skipstjóri í sex ár, ef illa færi. Ég var að fórna því. En þegar við komum heim með skipið stóðu þeir báðir á bryggjunni Villi og Baldi og fjölskyldur okkar og við fengum strax mikinn stuðning frá þeim bræðrum, mömmum okkar, konum, fjölskyldum og mjög mörgum vinum að ógleymdum Ágústi Aðalgeirssyni – Gústa Sönderland.

„Fyrsta árið var nú engin sérstök rómantík yfir þessu. Þetta var mjög erfitt og tók tíma að læra á skipið og vinnsluna. Ná upp hraða í vinnslunni þannig að þetta voru oft ansi langar vaktir hjá öllum. En svo mjakaðist þetta smátt og smátt áfram. Það tók um sex til átta mánuði að ná góðum tökum á þessu öllu og afköstin voru orðin ansi góð. Mig minnir að fyrsta heila árið hafi aflaverðmætið verið um 120 milljónir, sem hafði verið markmiðið, en smávægilegt tap var engu að síður á útgerðinni. Það olli okkur ekki neinum áhyggjum, það var aldrei til peningur á bókinni, en þetta hafðist og árið eftir var strax hagnaður.

Þorsteinn á trollinu að tékka hvort ekki sé allt í lagi.

Gullkarfi!

Við settum karfavél í skipið og flökuðum karfa. Það gekk svolítið brösuglega. Hún stóð á lestarlúgunni og við þurftum að hlífa hana í land þegar verið var að landa og yfir sumarmánuðina höfðum við hana bara í landi. Við flökuðum um 100 tonn af flökum um veturinn og aftur annað eins um vorið. Við vorum í Rósagarðinum þetta vor í mokveiði þannig að við vorum að veiðum frá því á morgnana og til fjögur eða fimm á daginn. Síðan var látið reka við að flaka karfa. Afköstin voru bara ekki nógu mikil. Þá var svo komin upp sú hugmynd að selja Japönum hausaðan karfa. Við fórum svo í það að frysta hausaðan karfa fyrir Japani en það reyndist nú engin gullnáma fyrst. Þeir vildu hafa hann svo rauðan og fyrir vikið urðum við að draga stutt en það skilaði engum afköstum að vera að draga kannski bara í klukkutíma, til að fiskurinn kæmi fallega rauður upp. Svo voru þeir um borð að sortera út honum. Það var því ekki mikið að fara í tækin því þetta var ekki nógu fallegt fyrir þá.

Bölvað puð

Svo áttuðu menn sig á því tiltölulega snemma að ætti að verða eitthvert framhald á þessari vinnslu yrði bara að taka þann karfa sem kom inn fyrir og frysta hann og þá fór það að koma. Þá varð gullsígildi að heilfrysta hausaðan karfa fyrir Japani og hausaða og sporðskorna grálúðu líka. Það var bölvað puð þangað til strákarnir fundu leið til að vélvæða sporðskurðinn. Eftir fyrstu tvö til þrjú árin var grálúðan á vorin orðin mjög mikils virði. Þegar við fengum svo Furuno höfuðlínumæla á trollin, gekk miklu betur að stýra trollinu og magninu sem kom inn. Það hreinlega gjörbreyttist veiðiskapurinn. Á þessum árum voru þessi mið kölluð Torg hins himneska friðar, en líka Hampiðjutorgið því menn rifu svo mikið að Hampiðjan hafði nóg að gera í að framleiða undirbyrði. Við vorum því stundum að safna að okkur undirbyrðum  allan veturinn til að eiga á lager til að þurfa ekki að taka í einu einhver 10 til 15 undirbyrði þegar grálúðuveiðar voru að hefjast. Grálúðuveiðin á þessum árum var alsveg meiriháttar ævintýri. Það var bara mok á köflum. Þá var oft verið að frá svona 20. apríl og fram að sjómannadegi. Svo er þetta allt breytt og menn eru á grálúðu allt árið núna. En á sínum tíma gengu grálúðuveiðar fyrir Norðurlandi mjög vel og voru þægilegar því þar var sléttur botn undir.“

Það var ekki bara í grálúðu og karfa sem þeir á Akureyrinni náðu góðum árangri. Þeir voru fyrstir í heiminum til að skera beinagarðinn úr þorskflökum með roði úti á sjó. Sú framleiðsla var í samvinnu við Magnús Gústafsson forstjóra Coldwater, dótturfyrirtækis Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í Bandaríkjunum.

Áhöfnin í grálúðutúr 1991.

Með frábæran mannskap

„Ég var þeirrar gæfu njótandi að það gekk vel, þetta voru gullaldarár. Ég var með frábæran mannskap, hvort sem var á dekki, brú eða vél. Það voru margir sem höfðu fylgt mér frá Kaldbak yfir á Akureyrina og líka menn sem höfðu verið með mér áður, þegar ég var stýrimaður á Harðbak. Þetta voru alltsaman hörku jaxlar og eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðuna. Þetta var mjög erfið vinna því millidekkið var svo lítið og mikil þrengsli og miklar forfæringar fram og til baka. Þetta var því stundum mikil handabakavinna og raunverulega tvöföld vinna á köflum. Það voru því oft langir dagar hjá mannskapnum.

Á toppnum

Ég er ekki alveg með verðmætin  á hreinu, en þau uxu ár frá ári, en við vorum á svipuðu róli og Örvar, sem var fyrsti frystitogarinn allt til 1992 þegar ég hætti um haustið með Akureyrina til að taka við Baldvin Þorsteinssyni nýjum. Það er ekki hægt að kvarta yfir neinu í þeim efnum. Við högnuðumst vel á þessum árum. Það liðu ekkert mörg ár þar til Samherji keypti Bæjarútgerð Hafnarfjarðar með fleirum og nafninu var breytt í Hvaleyri. Samherji keypti þá togarann Maí til að létta á skuldum félagsins. Honum var siglt til Noregs og breytt í frystiskip og fékk hann nafnið Margrét. Þá var nóg að gera í Slippnum þannig þeir þurftu ekki á verkefninu að halda. Seinna bættist Víðir í flotann okkar þegar rekstri Hvaleyrar var hætt, enda gekk rekstur frystihússins ekki upp. Síðan komu mörg skip, meðal annarra Oddeyrin sem við keyptum ásamt K. Jónsyni og Akureyrarbæ, sem við keyptum svo síðar út úr félaginu sem stofnað var um útgerðina.

Þegar frystitogararnir komu til sögunnar var það eina leiðin til að útgerð nýrra skipa gæti gengið vegna þess hve afköstin voru mikil um borð. Þetta varð að mínu mati til þess að til þess að stjórnendur frystihúsanna tóku til í sínum ranni og fóru að breyta hjá sér. Fyrst hægt var að vinna svona mikinn fisk úti á sjó, hlyti að vera hægt að gera betur í landi en verið hafði. Úr því varð öll þessi  tæknibylting í vinnslunni og ekki svona eftirsótt eins og áður að gera út frystitogara eins og áður. Vinnslan fór á sínum tíma út á sjó vegna þess að það var hagkvæmt en nú hefur sú þróun snúist við og landvinnslan orðin arðbær. Fyrir vikið hefur frystitogurum fækkað mikið og til dæmis gerir Samherji engan frystitogara út lengur.  Ísfisktogarar afla nú hráefnis til vinnslu í landi.

 

Með góðan kvóta

Þetta varð síðar líka mikil rómantík og oft ansi gaman þó erfitt væri. Þegar menn eru ungir og hraustir geta menn lagt mikið á sig. Þegar maður sér góðan árangur vex áhuginn líka. Okkur tókst á hverju sumri yfir háþorskvertíðina að gera oft ansi góða túra, stundum tvo, stundum þrjá. En á þessum tíma var oft ansi erfitt í þorskinum á haustin og vorin. Ekki eins og nú, þegar þorskur er um allan sjó, en þá kom grálúðan í staðinn á vorin. Á haustin var líka reynt að sækja í karfa, þegar þorskurinn gaf sig ekki til að láta árið ná saman Við vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa góðan þorskkvóta, góðan grálúðukvóta og þokkalegan karfakvóta. Ég held nú reyndar að við höfum aldrei náð karfakvótanum. Hann var þá settur í skipti fyrir annað, því  það hentaði einum að fiska karfa en öðrum kannski ekki. Þetta voru ævintýraár, þessi ár á Akureyrinni. Það liðu ekki mörg ár þar til við vorum búnir að létta veðsetningu af húsunum okkar og á ábyrgðinni á bænum.

Akureyrin eftir breytingarnar. Þorsteinn fiskaði mikið á hana og var skipið alla þá tíð með efstu skipum í aflaverðmæti.

Mikil karfa- og grálúðuveiði

Eftirminnilegar túrar frá þessum árum eru auðvitað margir. „Fyrsti stóri túrinn okkar var í byrjun ágúst 1985 vorum við með um 220 tonn af flökum sem eru tæplega 600 tonn upp úr sjó að verðmæti 15 milljónir, sem þótti hvorttveggja alveg svakalega mikið, enda stærsti túr sem þá hafði verið gerður aðeins á 16 til 17 dögum. En þessar tölur eru ekki sambærilega við tölur um verðmæti og afköst í dag, þó einhverjir spekúlantar geti sjálfsagt uppreiknað það. Þetta þóttu mikil afköst á fyrstu árunum, en nú er eru skipin stærri, betri tæki og öll aðstaða um borð betri og því eru afköstin orðin enn meiri en þá. Um vorið 1984 var ofboðsleg karfa- og grálúðuveiði í Rósagarðinum þar sem við létum reka hálfan sólarhringinn meðan verið var að vinna aflann.  Það var blíða allan tímann, bara slökkt á aðalvélinni og ljósavélin látin ganga.  Þá kom Vigri með umbúðir til okkar, vorum að verða umbúðalausir. Hann var að koma frá Reyðarfirði og var að fara í siglingu til Þýskalands. Stoppaði í Rósagarðinum  til að láta okkur hafa umbúðirnar. Það var skemmtilegt atvik.

Allt fullt af grálúðu

Svo voru oft miklir þorsktúrar fá því í júní og fram í ágúst. Eitt vorið í grálúðunni, líklega 1989,  gekk allt upp hjá okkur Frá 20. apríl fram að sjómannadegi, lönduðum við býsna oft. Eitt skiptið komum við til Hafnarfjarðar með fulla lest eftir 10 daga túr, en grálúðan geymdist mjög vel og við vorum með móttökuna fulla og í mörgum körum á millidekkinu. Þegar við vorum komnir á miðin aftur vorum við að enda við að frysta síðustu grálúðuna, sem hafði farið fram og til baka. Þá voru um tíu dagar fram á sjómannadag, en við urðum að fara inn á Patró til að landa þar í tvo þrjá gáma, áður en við héldum norður því það var aftur orðið fullt og móttakan full af grálúðu þannig að karlarnir höfðu nóg að gera þar til við komum til Akureyrar fyrir sjómannadaginn.“

En hvernig hráefni var lúðan eftir þetta ferðalag. „Hún var í fínu lagi.. Þessi pólsku skip eins og Akureyrin, Kleifaberg og Víðir voru með aðalvélina frammi í skipinu. Fyrir vikið var alltaf svo kalt á millidekkinu, því þar var engin vél undir. Það var mikil gæfa að hafa þetta svona , því fyrir vikið geymdu þessi skip fisk afskaplega vel.“

Slógu úr tólf tækjum

Þorsteinn þurfti oft að bregða sér niður í vinnsluna og þá fór hann oftast í sama starfið að slá  úr frystitækjunum eða blóðga. „Við vorum oft á reki og stundum lágum við við ankeri yfir sumartímann, þegar mikil veiði var og vinnslan hafði ekki undan. Við lágum stundum inni á Hornvík, undir Grænuhlíðinni og Aðalvík. Þegar við lágum við ankeri gat maður brugðið sér úr brúnni. Þá fór maður að slá út tækjunum. Stundum keyrði maður eins og á Halanum út í kalda sjóinn vestan við Halann, lét bara reka þar. Þá þurfti maður ekki að hafa neinar áhyggjur því kokkurinn og vélstjórarnir vöktuðu brúna ásamt mér. Kaldi sjórinn hélt millidekkinu ísköldu og það kom sér oft vel. Einu sinni sinni slógum við Hreinn Pálmason, yfirvélstjóri, úr 12 tækjum í röð með smá kaffipásum. Maður var helvíti siginn eftir það,“ segir Þorsteinn.

Viðtalið við Þorstein birtist fyrst í tímaritinu Ægi, 4-5 tölublaði sem kom út í byrjun mánaðarins.

Með gott hol á dekkinu sumarið 1985.

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Síldin sækir til vesturs 

Mun meira var að sjá af norsk-íslenskri síld og kolmunna í nýafstöðnum rannsóknarleiðangri færeyska rannsóknaskipsins Jákups Sv...

thumbnail
hover

Smjörsteikt rauðspretta

Rauðspretta er sérlega góður matfiskur með alveg einstöku bragði. Hana má elda á fjölmarga vegu en að þessu sinni leituðum við...

thumbnail
hover

Benchmark fær rekstrarleyfi í Höfnum

Matvælastofnun hefur veitt Benchmark Genetics Iceland hf. rekstrarleyfi til fiskeldis að Kirkjuvogi í Höfnum, Reykjanesbæ í samræmi v...