-->

Fiskur í mangó chutneysósu

Nú fórum við hjónin í hina ágætu uppskriftabók Endurnæring, sem er bók með uppskriftum eftir starfsfólk Endurhæfingarstöðvarinnar við Grensás. Þar er að finna margar góðar uppskriftir að hollum og fremur einföldum réttum. Þessi er reyndar eftir hana Helgu og finnst ritstjóranum það vel við hæfi. Í réttinn má nota nánast hvaða fisk sem er, en þó ber að hafa í huga að hann sé ekki laus í sér. Því hentar skötuselur vel en það er einfaldlega smekksatriði hvers og eins, hvað verður fyrir valinu.

600 gr skötuselur eða ýsa
200 gr rækjur
2 msk karrý
3msk mangó chutney
1 msk kóreander
1 grænmetisteningur
½ lítri rjómi
5 msk olía
salt og pipar

Aðferð:
Fiskurinn er skorinn í bita og steiktur á hvorri hlið í olíunni í um það bil eina mínútu og kryddaður með salti og pipar.
Hrærið saman mangó chutney, karrý, kóreander, grænmetiskrafti og rjóma. Raðið fiskinum í eldfast mót og setjið maukið yfir. Bakið alls í 10 til 12 mínútur við 200°C en bætið rækjunum út í eftir um 7 mínútur og bakið áfram. Gott er að hafa hrísgrjón og brauð að eigin vali með réttinum. Ferskt grænmeti á einnig vel við.