Fiskur í soja, engifer og vorlauk

290
Deila:

Í fljótu bragði er ekki að sjá að steinbítur eða skötuselur af Íslandsmiðum eigi eitthvað sameiginlegt með hinni fjarlægu Malasíu. En þegar betur er að gáð hentar afar vel að nýta uppskrift frá Malasíu fyrir þessa fínu fiska. Þó hvorug tegundin geti talist andlitsfríð verður úr þessari blöndu mjög fallegur, góður og hollur réttur. Uppskriftin er fyrir fjóra og verði ykkur að góðu.

Innihald:

800g steinbítur eða skötuselur

1 msk. maizenamjöl

1 fingurlangur biti af engifer

2 msk. matarolía

3 msk. vorlaukur saxaður

Sósa:

3 msk. sojasósa

3 msk. vatn

1 msk. sykur

2 msk. sesamolía

smávegis af hvítum pipar

Aðferð:

Skerið fiskinn í tveggja sentímetra bita og veltið þeim upp úr mjölinu og leggið til hliðar. Flysjið engiferinn og skerið í strimla. Blandið saman öllum efnum í sósuna og hrærið vel saman og gætið þess að sykurinn bráðni.

Hitið olíuna í wokpönnu eða annarri góðri pönnu uns hún verður snarpheit. Setjið þá engiferinn út á og steikið uns hann er orðinn fallega gullinn. Takið hann þá af pönnunni og leggið til hliðar.  Steikið fiskinn í sömu olíu og veltið bitunum varlega til að fá á þá jafna gyllingu. Hellið svo sósunni yfir fiskinn og látið suðuna koma upp. Takið þá pönnuna af hellunni.

Færið fiskinn yfir í fallega skál og hellið sósunni yfir og síðan engifernum og vorlauknum. Berið fram með soðnum hrísgrjónum.

Deila: