Fiskurinn gengur hraðar aftur í pokann

114
Deila:

Á kolmunnaveiðunum vorum við oftast að toga á 250 til 400 metra dýpi og stundum þurftum við að fara mun dýpra eftir afla,” segir Albert Sveinsson.

,,Ég er mjög ánægður með þetta nýja kolmunnatroll. Mér finnst það veiðnara en önnur troll, sem ég hef reynt, en helsti munurinn er sá að belgurinn er þannig hannaður að fiskurinn gengur mun hraðar aftur í pokann,” segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar, en hann og áhöfn hans notuðu nýtt 2304 metra Gloríu Helix kolmunnatroll frá Hampiðjunni á kolmunnaveiðunum í vetur og í vor.
Víkingur fór, ásamt Venusi NS, frá Reykjavík á mánudag og leita skipin, auk Hofells SU, nú að makríl í kantinum sunnan við landið. Albert segir að íslensku uppsjávarveiðiskipin skipti með sér leitinni en sem komið er hefur lítið fundist.
Svo vikið sé aftur að kolmunnatrollinu segir Albert það heldur stærra en fyrra troll. Belgur trollsins er átta byrða og ekki er hægt að tala um eiginlega breidd eða hæð tollopsins. Opnunin sé meira hringlaga. Albert segist nota 160 metra langa grandara. Fjarlægð milli toghlera sé um 330 metrar en notaðir séu 13 fermetra danskir MLD toghlerar á kolmunnaveiðunum.

Þótt trollið sé hannað til kolmunnaveiða þá segir Albert að það gæti nýst til síldveiða, sérstaklega þar sem síldin stendur djúpt.
Albert er einnig mikill aðdáandi DynIce Data höfuðlínukapalsins frá Hampiðjunni.
,,Ég hef notað DynIce Data frá því að ég var á Faxa RE og hann fær mín bestu meðmæli. Hann er miklu léttari í drætti en gömlu stálkaplarnir. Þeir sigu alltaf undan eigin þunga. Á makrílveiðunum er DynIce Data kapallinn svo að segja í yfirborðinu. Hann hefur einnig nýst vel á síldveiðum og kolmunnaveiðum.

Deila: