Fiskurinn á sig sjálfur

88
Deila:

„Þegar núverandi fyrirkomulagi við stjórn fiskveiða var komið á í frumstæðri mynd í desember 1983 var öllum fiskiskipum á Íslandi úthlutað hlutdeild í ákveðnum fisktegundum, oft nefnt kvóti í daglegu tali. Hlutdeild var síðan skráð á hvert fiskiskip árið 1990 og hefur Fiskistofa síðan þá haldið nákvæma skrá yfir hana.“

Þannig hefst grein eftir Guðmund Kristjánsson, forstjóra Brims, sem birt er á heimasíðu fyrirtækisins og í Fréttablaðinu. Hann skrifar svo:

„Í ársbyrjun 1984 var enginn kvóti eignfærður hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Árið 1990 heimiluðu íslensk stjórnvöld framsal á varanlegri aflahlutdeild, þannig að fyrirtæki gátu selt og keypt heimildir. Það hófst þannig að útgerð keypti skip með varanlegum aflaheimildum, á til dæmis 100 milljónir króna, seldi svo skipið án aflaheimilda á 20 milljónir króna. Í bókhaldi sjávarútvegsfyrirtækja var þá fært 80 milljóna króna sölutap af fjárfestingunni. Ríkisskattstjóri (RSK) gerði athugasemd við þetta. Hann fór með málið fyrir dóm í nafni fjármálaráðherra og krafðist þess að aflahlutdeild væri eignfærð í bókum útgerðanna. Síðan kom niðurstaða í Hæstarétti í nóvember 1993 og RSK og fjármálaráðherra unnu málið. En út af óvissu með fiskveiðistjórnunarkerfið leyfði Hæstiréttur 20% skattalega afskrift af aflaheimildum á næstu árum.

En skatturinn og ríkið sættu sig ekki við að leyft væri að afskrifa aflahlutdeild (kvótann). Til að bregðast við þessu lagði þáverandi fjármálaráðherra fram frumvarp á Alþingi í nóvember 1997 um að bannað yrði alfarið að afskrifa kvóta. Frumvarpið var samþykkt í desember 1997. Allar götur síðan þá hefur verið bannað að afskrifa kvóta. En lykilatriði til að ná hagræðingu og arðsemi í íslenskum sjávarútvegi var að sameina kvótann á færri skip og báta og nýta framleiðslutækin betur og stækka fyrirtækin. Sjávarútvegurinn fékk alveg skýr skilaboð frá kosnum fulltrúum þjóðarinnar um að hagræða, ná arðsemi, sýna ábyrgð í umgengni við auðlindir, minnka olíunotkun, sem heitir í dag minnka kolefnisspor, en vera eftir sem áður arðsamur til að geta greitt meðal annars auðlindagjald á undan öllum okkar samkeppnisþjóðum við Norður-Atlantshaf. Meira að segja Evrópusambandið styrkir enn þá sinn sjávarútveg um milljarðatugi á hverju ári og hefur lengi gert.

Keyptar aflaheimildir (kvóti) eru í dag ein helsta eign sjávarútvegsfyrirtækja. Og ástæðan er að ríkið hefur krafist þess og Alþingi Íslendinga hefur samþykkt lög sem skylda íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til að eignfæra kvótann. Ég sem útgerðarmaður hef aldrei sagt að útgerðin eigi fiskinn í sjónum. Fiskurinn á sig sjálfur, útgerðin á veiðirétt samkvæmt lögum.“

Deila: