Fiskvinnsla á tímum Coronaveirunnar

324
Deila:

Nýjasta tölublað sjávarútvegstímaritsins Ægis er helgað íslenski fiskvinnslu og óhjákvæmilega kemur Coronaveiran þar til sögunnar

„Allir verða varir við áhrif veirufaraldursins, öll heimili, öll fyrirtæki, allar atvinnugreinar. Íslenskur sjávarútvegur varð þess var strax þegar byrjað var að loka veitingahúsum í helstu viðskiptalöndum okkar. Jafnvel þó að einhverju leyti verði aukning í sölu á fiski í verslunum er samdráttur í afurðasölu óumflýjanlegur. Að minnsta kosti á meðan mesti hvirfilbylur veirusýkingarinnar gengur yfir.

Horft til stóru myndarinnar í áhrifum veirusýkingarinnar á sjávarútveginn og fiskvinnsluna sést að
enn og aftur kemur fjölbreytni greinarinnar sér vel. Þó við höfum fært framleiðsluna í vaxandi mæli yfir í ferskar afurðir er frysting ennþá traust undirstaða hennar, sem og söltun. Vissulega mun höggið hins vegar verða mikið fyrir þau fyrirtæki sem alfarið hafa framleitt fyrir veitingakeðjur sem nú þurfa að loka sínum matsölum svo vikum skiptir.
Líkt og á vísindasviðinu nýtur sjávarútvegurinn aukinnar tæknivæðingar í fiskvinnslu sem fjallað um í þessari útgáfu Ægis. Það hefur verið mikil áskorun fyrir vinnslurnar og sjávarútvegsfyrirtækin að halda sinni starfsemi gangandi en á þessu sviði atvinnulífsins, sem öðrum í þjóðfélaginu, er starfsfólk í sjávarútvegi staðráðið í því að standa þetta öldurót af sér. Vissulega er þessi alda býsna stór miðað við þær sem greinin er vön að takast á við í sínum sveiflukennda umhverfi en hún mun
enn á ný rísa undir því að vera burðarstoð þjóðfélagsins þegar mest á reynir,“ segir Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri blaðsins í leiðara.

Meðal efnis í blaðinu má nefna umfjöllun um bleikjuvinnslu Samherja í Sandgerði og viðtöl við Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóra Þorbjarnar, Jón Birgi Gunnarsson, sviðs- og sölustjóra markaðssviðs Völku. Sagt er frá laxavinnslu Búlandstinds á Djúpavogi og lifrarniðursuðu Ægis í Grindavík og rætt við Guðmund Smára  Guðmundsson, framkvæmdastjóra G.Run á Grundarfirði og Elliða Hreinsson framkvæmdastjóra og stofnanda Curio. Sagt er frá nýrri námsbraut Fisktækniskólans og  rætt við Ragnar Ólafsson, framkvæmdastjóra D-Tech, sem er sérhæft í sótthreinsun fiskvinnslufyrirtækja.

 

Deila: