Fiskvinnsluhús í kvikmyndahlutverki!

Deila:

Gamla fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík hefur nú fengið algjörlega nýtt hlutverk en sem kunnugt er má segja að Dalvík sé á öðrum endanum meðan tökur á bandarísku spennuþáttunum True Detective standa þar yfir. Búið er að klæða huta bæjarins í búning  lítils bæjar í Alaska og er gamla fiskvinnsluhúsi Samherja notað fyrir skrifstofur framleiðenda þáttanna og starfsemi leikmunadeildar verkefnisins.

„Það er hreint út sagt frábært að vera hérna á Dalvík, allir íbúarnir taka vel á móti okkur og leggja sig fram um að gera alla vinnu sem þægilegasta. Sömu sögu er að segja um sveitarfélagið og öll fyrirtæki, sem eru boðin og búin til að greiða götu okkar á allan hátt. Við segjum stundum að gamni að smábærinn sé í Dalaska en ekki í Alaska, sem undirstrikar hversu heppin við erum með alla aðstöðu hérna á Dalvík,“ segir verkefnastjóri framleiðandans í viðtali á vef Samherja. „Húsið er algjörlega sniðið að okkar þörfum og við erum afskaplega þakklát Samherja fyrir að hleypa okkur inn í húsið með tiltölulega skömmum fyrirvara.“

Íbúar Dalvíkurbyggðar hafa verið ráðnir til að leika í þessari heimsfrægu þáttaröð. Nokkrir starfsmenn Samherja á Dalvík hafa ráðið sig til starfa, einn þeirra er Friðjón Árni Sigurvinsson.
„Ég var langt fram á nótt í tökum en mætti hress og kátur í vinnuna í morgun. Síðan fer ég aftur síðdegis í tökur, þetta er þrælskemmtilegt og fín tilbreyting frá hversdagsleikanum. Annars má maður ekkert segja, trúnaðurinn í kringum svona lagað er mikill. Ég get þó sagt að mitt hlutverk tengist lögreglustöðinni á staðnum, meira má ég ekki segja. Jú, ég verð að viðurkenna að ég þurfti að raka af mér skeggið vegna hlutverksins en það vex aftur,“ segir Friðjón Árni í viðtali á vef Samherja.„Nei, ég á svo sem ekkert von á einhverjum tilboðum frá Hollywood í kjölfarið en auðvitað verður gaman að sjá útkomuna þegar sýningar hefjast. Ég held að þetta verði góð auglýsing fyrir Dalvík,“ segir Friðjón Árni.

Meðfylgjandi eru myndir af vef Samherja en óhætt er að segja að þetta stóra kvikmyndaverkefni á Dalvík hafi hrist verulega upp í bæjarbragnum.

Aðalgatan í gegnum Dalvík er næsta óþekkjanleg þessa dagana.

Deila: