Fjárfesting er forsenda framfara

Deila:

Samkvæmt nýlegri samantekt Deloitte á Íslandi, sem birt var á Sjávarútvegsdeginum í september, hefur fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum í sjávarútvegi verið að meðaltali 22,6 milljarðar króna á ári, frá árinu 2014, eða samtals 113 milljarðar. Fjallað er um mikilvægi fjárfestinga í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fjárfesting tryggir samkeppnishæfni
Fjárfesting er forsenda framfara á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins. Í sjávarútvegi er hún einkar mikilvæg af ýmsum ástæðum, en sjávarútvegur er grunnstoð í íslensku efnahagslífi og hefur verið um langt skeið. Um 98% af íslensku sjávarfangi eru seld á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði þar sem Íslendingar verða að standast öðrum fiskveiðiþjóðum snúning, fiskveiðiþjóðum sem eru mun nær markaðinum og þar sem sjávarútvegur er oft ríkisstyrktur og niðurgreiddur. Vel hefur tekist til í þeim efnum og íslenskur fiskur selst við háu verði á vel borgandi mörkuðum. Til að viðhalda þessari stöðu þarf sífellt að huga að fjárfestingu í nýrri tækni; skip verða sífellt fullkomnari og vinnsla í landi sömuleiðis.

Fjárfesting er umhverfismál
Fjárfesting er stórt umhverfismál, því nýrri tækni fylgir minni notkun á jarðefnaeldsneyti. Þetta hefur glögglega komið í ljós í nýjum skipum sem komið hafa til landsins á undanförnum misserum. Nýr togari Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum afkastar á við tvo togara sem hann leysti af hólmi en brennir þriðjungi minna af olíu en hvor togaranna um sig hefði gert við veiðarnar. Hagkvæmni af fjárfestingu verður ekki öllu áþreifanlegri. Þá má geta geta þess að sjávarútvegur er eina atvinnugreinin á Íslandi sem, fyrir sitt leyti, hefur náð markmiðum Parísarsamkomulagsins og hyggst á komandi árum gera enn betur.

Fjárfesting treystir lífskjör
Til að treysta og bæta lífskjör í landinu þurfum við ávallt að halda okkur á braut nýsköpunar og þróunar og þar þurfum við að vera í forystu. Til þess að það sé hægt verður greinin að skila arði og fá að halda því eftir af arðinum sem þarf til að endurnýja og endurskapa tækjabúnað sem er kjarninn í eigin fé fyrirtækjanna. Ef við höldum ekki forystu okkar heldur drögumst  aftur úr þá verður framlag sjávarútvegs til verðmætasköpunar í samfélaginu vart svipur hjá sjón miðað við það sem nú er. Af þessu má ljóst vera að nýsköpun verður ávallt að vera samofin starfsemi íslensks sjávarútvegs.

Fjárfesting eykur nýsköpun
Fjárfesting er ekki eingöngu nauðsynleg til þess að standast alþjóðlega samkeppni, draga úr losun koltvísýrings og bæta aðstöðu vinnandi fólks. Fjárfesting sjávarútvegsfyrirtækja hefur mikil áhrif á tilurð og afkomu annarra fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn. Sú ánægjulega þróun hefur orðið að fjölmörg nýsköpunarfyrirtæki hafa orðið til vegna þjónustu við sjávarútveg. Þeim hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum og selja vörur og þjónustu til útlanda fyrir tugi milljarða króna á ári. Þá eru líftæknifyrirtækin ótalin.

Í lokin er gaman að geta þess að þrjú undanfarin ár hafa Nýsköpunarverðlaun Íslands fallið í skaut fyrirtækja sem öll tengjast sjávarútvegi; Curio, Kerecis og Skagans 3X. Tilgangur verðlaunanna „…er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu og rannsókna og þekkingaröflunar.“ Sé litið aftur til ársins 2010 kemur í ljós að verðlaunin hafa sex sinnum komið í hlut fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi. Allt sem hér hefur verið talið upp byggist á þeirri grundvallarforsendu að fyrirtækin geti fjárfest; minni geta til þess mun hafa víðtæk og kostnaðarsöm áhrif.

 

Deila: