Fjölbreytnin, hraðinn, keppnisskapið og framsæknin

Deila:

Mann vikunnar dreymir um að fara í frí til Króatíu í siglingu á snekkju sem hún stýrir sjálf. Hún byrjaði tólf ára í saltfiski í kennaraverkfalli og auðvitað er saltfiskur uppáhaldsmaturinn.

Nafn:

Margrét Kristín Pétursdóttir.

Hvaðan ertu?

Grindavík.

Fjölskylduhagir?

Gift Jóhanni Helgasyni og eigum þrjú börn, Helga Hafstein 11 ára, Kamillu Kristínu 7 ára og Árna Hafberg 2 ára.

Hvar starfar þú núna?

Forstöðumaður gæðamála hjá Vísi hf.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Í kennaraverkfallinu í grunnskóla, þá í 7 bekk eða 12 ára. Pabba leist ekkert á þetta „draumafrí“ framundan hjá okkur systrunum og skutlaði okkur á fyrsta degi í pakkið í Salthúsinu hjá Vísi.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Fjölbreytnin, hraðinn, keppnisskapið og framsæknin. Fyrirtæki geta ekki leyft sér að staðna í þessum bransa.

En það erfiðasta?

Þegar hlutir ganga of hægt.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ætli það var ekki bara þegar að ég byrjaði að halda með Liverpool eitt gott kvöld á sjávarútvegssýningunni í Brussel. Það var skrýtið.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég hef kynnst mörgum skemmtilegum karakterum, ómögulegt að velja einn.

Hver eru áhugamál þín?

Að njóta í náttúrunni hvort það sé að ganga, hlaupa eða „paddla“ og svo auðvitað jóga og allt sem tengist því.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Saltfiskurinn með sellerístöppunni hjá Láka í Salthúsinu í Grindavík, ekki spurning.

Hvert færir þú í draumfríið?

Til Króatíu á snekkju (sem ég stýri sjálf).

 

 

Deila: