Fljótandi dósahnífur og dýrustu samlokur sögunnar

126
Deila:

Út er komin bókin Sjávarplássið Dalvík eftir Jóhann Antonsson. Þar er í máli og myndum rakin saga útgerðar og fiskvinnslu sem hófst með útgerð bænda í Svarfaðardal og fylgdi síðan þéttbýlismyndun á Böggvistaðasandi, síðar Dalvík. Á Dalvík er rík og rótgróin sjávarútvegshefð og þjónustustarfsemi tengd atvinnugreininni. Þar hafa löngum starfað dugmiklir frumkvöðlar sem styrkja byggðina og atvinnulífið með framsýni, áræðni og sérhæfðri, sjávartengdri starfsemi af ýmsu tagi.
Allt þetta er rakið í bókinni, kryddað óborganlegum mannlífssögum og prýtt sögulegum ljósmyndum sem margar hverjar hafa aldrei birst fyrr á opinberum vettvangi.
Höfundurinn, Jóhann Antonsson, er Dalvíkingur og viðskiptafræðingur með fjölþætta reynslu af sjávarútvegi. Hann var stjórnandi í fyrirtækjarekstri, sinnti frumkvöðlastarfsemi og var ráðgjafi stjórnvalda og fyrirtækja um árabil. Hann hefur skrifað fjölda blaðagreina og frétta um sjávarútveg og sjávarútvegsfyrirtæki í Dalvíkurbyggð og gjörþekkir því viðfangsefni sitt.
Jóhann segir meðal annars í formála bókarinnar: „Þegar ég nú lít um öxl og virði fyrir mér atburðarásina teiknar sig upp mynd af því hvernig hvert tímabilið tekur við af öðru. Íbúar og fyrirtæki bregðast sífellt við nýjum aðstæðum og byggja á reynslu og þekkingu sem safnast hefur í áranna rás. Mikill mannauður er hryggjarstykkið í þróuninni, hvort heldur talað er um fólkið í fiskvinnslunni eða karlinn í brúnni.“

●Togarinn Baldur var keyptur frá Dalvík til Landhelgisgæslunnar og látinn rista rifur á síður herskipa í þorskastríðinu 1976. Breski flotinn óttaðist „fljótandi dósahníf“.

●Áhöfn Dalborga EA fór yfir miðlínuna milli Íslands og Grænlands og var staðin að verki við ólöglega rækjuveiðar. Hún var sektuð um borð í danska herskipinu Vædderen og fékk brauðsamlokur ahentar með rukkuninni. Það voru dýrustu samlokur veraldarsögunnar.

Sjávarplássið Dalvík er gefin út Svarfdælasýsl forlagi sf. og er hún 272 blaðsíður að stærð.

Deila: