Flotinn farinn á kolmunna

99
Deila:

Síldarvinnsluflotinn hefur haldið til kolmunnaveiða frá Neskaupstað. Beitir NK lét fyrstur úr höfn í miðvikudagsmorgun, síðan Bjarni Ólafsson AK í hádeginu, þá Börkur NK síðdegis og loks Polar Amaroq. Gert er ráð fyrir að kolmunninn gangi norður úr skosku lögsögunni og inn á hið svonefnda gráa svæði um þessar mundir og þá geta skipin hafið veiðar.

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki en skipið var þá statt í bullandi brælu. „Hér eru 25-30 metrar og heldur leiðinlegt veður og það verður bræla áfram samkvæmt spá, alveg fram á annað kvöld. Það er engin veiði hafin á gráa svæðinu. Oft hefur veiðin byrjað þar upp úr 10. apríl og stundum reyndar fyrr eða 4.-5. apríl. Í fyrra hófst veiðin hinsvegar seint. Mig minnir að það hafi verið 16. apríl. Þetta er svolítið breytilegt á milli ára en þetta kemur,“ segir Hjörvar.
Ljósmynd Helgi Freyr Ólason

 

Deila: