Flytja sand og báta frá Noregi til Færeyja

152
Deila:

Færeyska flutningaskipið Hav Streym kemur með ýmsan varning frá Noregi til Færeyja. Það flytur til dæmis mikið af möl og sandi til eyjanna en að undanförnu hefur mikið af skemmtibátum fengið að fljóta með.

Skipstjórinn Martin Thomassen, kom í lok síðustu viku til Fuglafjarðar með möl, sand og tvo báta. Sandurinn fór til Leirvíkur, mölinni skipað upp í Fuglafirði og bátarnir hífðir upp á bryggju. Hann segir að skemmtibátar af ýmsum stærðum og gerðum séu algengur flutningur  um þessar mundir og sama eigi við um fleiri skip hjá útgerðinni. Skýringin sé sú að lágt gengi norsku krónunnar geri það hagstætt að flytja inn til Færeyja báta frá Noregi.

Útgerðin þarf ekki að hafa mikið fyrir bátaflutningunum því grafa um borð er notuð til að grafa holur í sandinn og mölina. Síðan eru þeir hífðir um borð og komið fyrir í holunum og sitja þar vel. Þegar heim er komið eru þeir hífðir frá borði upp á bryggju, flutningavagn eða einfaldlega sjósettir, allt eftir óskum eigendanna.
Þess má geta að möl og sandur er nánast munaðarvar í Færeyjum, þar sem eyjarnar eru flestar að miklu leyti jarðvegslitlir klettadrangar og fjörur litlar. Því eru möl og sandur framleidd í svokölluðum „grjótbrotum“ þar sem klettar eru sprengdir niður og malaðir í möl og sand. Þess vegna eru þessar afurðir fluttar inn í töluverðum mæli.

 

Deila: