Fór á öldunni inn

Deila:

„Það var ekkert mál að fara þarna inn. Ég sá reyndar Auði Vésteins fara á undan mér inn. Hún fór í sléttum sjó. Þegar ég kom á eftir var komið haugabrim. En ég fór bara varlega og fór á öldunni inn. Ég náði því alveg að halda honum,“ segir Óðinn Arnberg skipstjóri á Óla á Stað frá Grindavík í samtali við Kvótann. Hann kom inn til Grindavíkur í síðustu viku í miklu brimi og Jón  Steinar Sæmundsson náði frábærum myndum af bátnum í innsiglingunni.

Óðinn hefur að mestu leyti verið með bátinn við Reykjanesið í vetur að undanskildum smá tíma sem róið var frá Siglufirði. Hann segir að það hafi ekki gengið vel og úthaldið hafi nánast engu skilað. „Bara brælur og læti. Það er annars búið að vera sæmilegt hér heima, en ég hef ekki fengið beituna sem ég hef beðið um. Þeir eru að láta mig róa með svo mikið af „sára“. Þetta er handónýt beita. Maður sér bara krókana koma tóma upp. Þetta bara flýgur af og virkar ekki nógu vel. Þessa vegna hefur aflinn verið aðeins minni en maður vildi, svona sjö tonn að meðaltali í róðri. Það hafa ekki komið neinir alvöru róðrar,“ segir Óðinn.

Landað úr Óla á Stað í gær. Aflinn var um sjö tonn. Jón Ingi tekur á móti körunum á bryggjunni. Óðinn er á krananum og Hallfreður bróðir Óðins fylgist með.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Vertíðarlok eru þann 11. maí samkvæmt hefðinni og Óðinn reiknar með því að fara svo á Siglufjörð eða austur. Á þessum tíma gengur þorskurinn út af grunninu eftir hrygningu og hafa gert sitt gagn eins og Óðinn segir. Því mætti velta því fyrir sér hvort þorskurinn er með dagsetninguna á vertíðarlokunum á hreinu, eða hvort vertíðarlokin hafi frá upphafi verið miðuð við þann tíma sem sá guli hefur lokið sér af og heldur út á djúpið á ný. „Þegar hann fer út af grunninu náum við að elta hann út í Skerjadýpið en síðan ekki meir. Þá verður þetta hálf tómleg og maður fer að fá löngu og fleira, sem mann langar ekki í,“ segir Óðinn.

Óðinn Arnberg skipstjóri á Óla á Stað.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

 

Deila: