-->

Forsetafiskur

Þessi fiskréttur hefur hlotið nafnið forsetafiskur og ber nafn með rentu, því hann er herramannsmatur. Ekki má þó skilja þetta sem svo að aðeins forsetar eigi skilið kræsingar. Þær eiga allir skilið. Þessi réttur er tiltölulega einfaldur og auðveldur í eldamennsku, hollur og góður. Rétt er að benda á ótvíræða hollustu fiskneyslu og fjölbreytt jákvæð áhrif á heilsufar og gáfur.

Innihald:
3 græn epli
1 græn paprika
6-7 sneiðar beikon
smjör
ýsuflak
hveiti
pipar
salt
Aðferð
1 stk. Camembert-ostur, rifinn
Afhýðið eplin og skerið í bita. Skerið einnig paprikuna í bita.
Beikonið er skorið í 3-4 bita (hver sneið) og steikt í smjöri þar til það er glært.
Skerið ýsuflakið í litla bita og veltið því upp úr hveiti, pipar og salti. Steikið við vægan hita.
Allt er síðan látið í eldfast mót og Camembert-ostur er látinn í litlum bitum hér og þar ofan á.
Yfir allt er síðan dreift rifnum osti.
Hitið í 20-30 mínútur við 180°c
Gott er að hafa hrísgrjón með þessum rétti, en að sjálfsögðu ber hver og einn fram meðlæti að eigin vali og óskum. Sama á væntanlega við um drykki með matnum.