-->

Forsetinn staðfestir lög um veiðigjöld

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur ákveðið að staðfesta ný lög Alþingis um breytingu á veiðigjöldum. Hann segir þau tímabundna breytingu á gjaldtöku vegna nýtingar auðlindarinnar en enga grundvallarbreytingu á skipan fiskveiðistjórnunar að öðru leyti. Þetta kom fram á blaðamannafundi hans á Bessastöðum nú síðdegis.

Hann höfðar jafnframt til stjórnvalda að ná sátt um stjórnun fiskveiða og gjaldheimtu vegna hennar. Það sé hvorki atvinnugreininni né þjóðinni til heilla að áfram verði árum saman átök um þennan grundvallar þátt í efnahagslífi okkar Íslendinga. Hann telji að sá fjöldi undirskrifta sem safnað var þýði það að þjóðin hafi ríka réttlætiskennd í þessum málum, sem Alþingi sem löggjafarvald og ríkisstjórnin sem forystusveit lýðveldisins verði ekki aðeins að hafa í huga heldur líka virða. Markmið okkar allra hljóti að vera að við náum sem þjóð sæmilegri, varanlegri  og viðunandi sátt um þennan höfuðþátt í okkar efnahagslífi og sjálfstæði. Hann segir afar mikilvægt að fólkið í landinu noti lýðræðislegan rétt sinn til að tjá andstöðu sína við málefni sem séu til meðferðar á Alþingi. Það sé mikilvægur þáttur í framþróun lýðræðisins. Það breyti því þó ekki að hann verði að taka þá ákvörðun hvort hann vilji stíga það skref að gefa það fordæmi að tekjuöflun ríkisins, þar sem munar aðeins þremur milljörðum milli, ára eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki. Það vilji hann ekki.
Forsetinn hefur gefið út eftirfarandi yfirlýsingu vegna málsins: „Þegar ég hef á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar vísað lögum til þjóðarinnar hafa þau varðað grundvallaratriði í lýðræðisskipan eða efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga. Nýting höfuðauðlinda þjóðarinnar er á vissan hátt hliðstætt grundvallarmál, bæði skipan fiskveiða og greiðslur vegna afnota. Með lögunum um veiðigjald, sem Alþingi hefur nú afgreitt, er ekki verið að breyta skipan fiskveiða og áfram verður greitt veiðigjald til þjóðarinnar bæði almennt veiðigjald og sérstakt veiðigjald; heildargreiðslur vegna nýtingar auðlindarinnar á næsta ári verða um 10 milljarðar króna.
Meginefni laganna er að áformuð hækkun veiðigjalda kemur ekki til framkvæmda og breytt er hlutföllum milli uppsjávarveiða og botnfiskveiða; greiðslur einstakra fyrirtækja ýmist lækka eða hækka. Forsenda laganna er einnig að þessi gjöld verða endurskoðuð á næsta þingi.
Lögin fela því ekki í sér grundvallarbreytingu á nýtingu auðlindarinnar en kveða á um tímabundnar breytingar á greiðslum til ríkisins, sköttum vegna nýtingar. Að vísa lögum af því tagi í þjóðaratkvæðagreiðslu væri svo afdrifaríkt fordæmi að víðtækar umræður og afar breiður þjóðarvilji þyrfti að vera á bak við slíka nýskipan í meðferð skattlagningar, þjóðaratkvæðagreiðslur um hækkanir eða lækkanir á einstökum tekjuliðum ríkisins.
Ég hef þess vegna ákveðið að staðfesta lögin en árétta um leið hvatningu til stjórnvalda, Alþingis og ríkisstjórnar, um að kappkosta að við boðaða endurskoðun að ná varanlegri og víðtækri sátt um skipan fiskveiða og arðgreiðslur til þjóðarinnar enda sýnir fjöldi undirskrifta vegna laganna um veiðigjald að almenningur hefur ríkan vilja og réttlætiskennd í þessum málum. Sátt um nýtingu höfuðauðlindar Íslendinga er í senn forsenda farsældar í landinu og siðferðileg skylda okkar allra.“