Fótspor botnlægra veiðarfæra kortlagt

97
Deila:

„Hlutdeild af fótspori botnlægra veiðarfæra umtalsverð á svæðum þar sem afli er tiltölulega lítill sem og á svæðum sem „snert eru” einungis í fá ár. Með öðrum orðum þá mætti takmarka núverandi fótspor veiðarfæra umtalsvert án þess að það komi mikið niður á heildarafla. Rétt er þó að hafa í huga að nú þegar eru umtalsverð svæði lokuð, sérstaklega fyrir fiskibotnvörpu. Ef ráðist yrði í frekari takmarkanir á veiðum frá því sem nú er, má þó vænta að fjölbreyttari flokkar búsvæða yrðu verndaðir fyrir veiðum.“

Þetta kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um vernd viðkvæmra búsvæða á hafsbotni. Það var Atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytið, sem óskaði eftir gerð skýrslunnar. Ráðuneytið hefur hafið vinnu við mótun stefnu varðandi verndun viðkvæmra botnvistkerfa innan íslenskrar efnahaglögsögu.

Unnið er að því að móta verklagsreglur varðandi vernd viðkvæmra botnvistkerfa sem byggir á þeim alþjóðlegu viðmiðum sem Ísland hefur tekið þátt í að móta fyrir úthafið. Þetta felur meðal annars í sér skilgreind botnveiðisvæði, skilgreind takmörkuð botnveiðisvæði og verndarsvæði.

Því óskað ráðuneytið eftir því að Hafrannsóknastofnun tæki saman upplýsingar auk þess að leggja mat á fimm þætti er varða viðkvæm botnvistkerfi. Þeim fimm þáttum sem ráðuneytið fór fram á að Hafrannsóknastofnun skoðaði eru gerð skil í skýrslu sem kom út 8. október 2021.
Hlekkur á skýrslu

Deila: