Framleiðslumet sett hjá Síldarvinnslunni

Deila:

Framleiðslumet í vinnslu á makríl var sett hinn 29. ágúst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, en  þann sólarhring fóru 820 tonn í gegnum húsið. Þennan metsólarhring voru unnin 370 tonn úr Berki NK og 450 tonn úr Beiti NK.

Í tilefni af þessu meti ræddi heimasíðaSíldarvinnslunnar við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu og spurði hann fyrst hvort allt þyrfti ekki að ganga upp til þess að afköstin gætu orðið svona mikil.

„Jú, það má segja það. Það þarf allt að ganga fullkomlega upp. Allur vélbúnaður þarf að vera í toppstandi og engar bilanir að hrjá okkur, hráefnið þarf að vera fyrsta flokks og síðast en ekki síst frábær mannskapur. Við erum svo heppin að hafa frábært starfsfólk og skipin sem landa hjá okkur koma með hágæðahráefni að landi.

Hjá okkur er unnið við framleiðsluna á þrískiptum vöktum og eru 25-26 á hverri vakt. Hluti starfsfólksins hefur ekki unnið svona störf áður en það hefur verið fljótt að aðlagast og náð frábærum árangri. Annars hefur makrílvertíðin gengið vel hjá okkur. Makríllinn hefur yfirleitt verið stór og fallegur og sannkallað úrvalshráefni. Um tíma voru farmarnir dálítið blandaðir hvað stærð varðar, en stóri fiskurinn er aftur orðinn ráðandi,“ segir Jón Gunnar.

Sl. föstudag fagnaði starfsfólk fiskiðjuversins framleiðslumetinu innilega og var þá að sjálfsögðu dýrindis terta á borðum.

Deila: