-->

Fríða Dagmar ÍS með tæp 2.000 tonn í fyrra

„Já þeir áttu heldur betur gott árið áhöfnin á  Fríðu Dagmar ÍS.  Heildaraflinn hjá þeim var 1992 tonn í 277 róðrum eða 7,2 tonn í róðri. Segja má að Fríða Dagmar ÍS hafi átt smábátalistann yfir 10 BT árið 2013.  Báturinn komst sex sinnum í efsta sætið og þrisvar í annað sætið.  Mesti afli bátsins var í júní þegar að báturinn landaði 273 tonnum og komst mest í 25 tonn í einni löndun.

Tæp tvö þúsund tonn á 15 tonna báti er ótrúlegur afli svo ekki sé meira sagt.“
Þetta skrifar Gísli Reynisson á fréttavefinn sinn http://aflafrettir.is/ þegar hann fer yfir lista yfir afahæstu smábátana á síðasta ári.
Hann skrifar þar ennfremur: Hálfdán Einarsson ÍS fór í gegnum ansi miklar breytingar á árinu.  Fyrst hét hann Hrólfur Einarsson ÍS og réri undir því nafni fram í miðjan ágúst.  Fór þá til Siglufjarðar í lengingu og kom til baka sem 30 tonna bátur og með nýtt nafn.  Hálfdán Einarsson ÍS.  Báturinn hóf veiðar undir því  nafni í október. Heildafli afli bátsins undir báðum nöfnunum var 1537 tonn í 221 róðri eða 6,9 tonn í róðri. Báturinn tók þátt í vægast sagt rosalegu moki í júní frá Bolungarvík og landaði hvorki meira né minna en 349 tonnum í 21 róðri.  Sló þar hann með íslandsmetið sem Steinunn HF setti í apríl.  Þetta aflamet hjá bátnum 349 tonn efast síðuritari um að verði nokkurn tímann slegið.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem eru með borða hérna á síðunni er útgerðarfélagið Blakknes í Bolungarvík.  Félagið gerir út bátinn  Einar Hálfdáns ÍS  og sá bátur situr í þriðja sæti.

Heildafli bátsins var 1410 tonn í 236 róðrum eða tæp 6 tonn í róðri.  Báturinn var með mjög svipaðan afla og árið 2012 enn þó örlitla aflaminnkun eða uppá 2,2 %.

Báturinn komst hæst í annað sætið í ágúst enn var með mestan afla í júní þegar þeir lönduðu 170 tonn í 16 róðrum.

Árið 2013 var ansi gott hjá smábátunum og mun fleiri bátar náðu t.d yfir 1000 tonnin árið 2013 enn árið 2012.  Þeir voru um 214 talsins sem voru að róa og lönduðu um 61 þúsund tonnum.

Ef við skoðum hvernig þetta skiptist þá var það þannig að 54 bátar náðu yfir 400 tonnin árið 2013 en voru 56 árið 2012. 40 bátar náðu yfir 500 tonn sem er sami fjöldi og árið 2012.

30 bátar náðu yfir 600 tonnin, en þeir voru 34 bátarnir árið 2012. 23 bátar náðu yfir 700 tonn en þeir voru 23 árið 2012. 19 bátar náðu yfir 800 tonn en þeir voru 17 árið 2012. 16 bátar náðu yfir 900 tonn en þeir voru 11 árið 2012 og síðan var mikil aukning í bátunum sem náðu yfir 1000 tonnin því 13 bátar náðu yfir 1000 tonn en voru 9 árið 2012.