Frumvarpsdrög um breytt strandveiðikerfi lögð fram

Deila:
Drög að frumvarpi matvælaráðherra um nýtt fyrirkomulag strandveiða hefur verið birt í samráðsgátt til umsagnar en frestur er gefinn til 15. febrúar næstkomandi. Líkt og komið hefur fram áformar ráðherra að breyta strandveiðikerfinu á þann hátt að aflaheimildum verði skipt milli fjögurra svæða og munu heimildirnar skiptast eftir fjölda báta sem skráðir eru á hvert svæði. Þegar leyfilegum heildarafla hvers tímabils á viðkomandi svæði verður náð skuli Fiskistofa stöðva veiðar á því svæði.
Fram kemur í umfjöllun með frumvarpsdrögunum að ráðherra skuli með reglugerð skilgreina strandveiðisvæðin fjögur, aflaheimildir á tímabil og landsvæði sem og viðmiðunar- og útreikningsreglur um ráðstöfun og flutning aflaheimilda en gert er ráð fyrir að heimilt verði að flytja aflaheimildir milli tímabila og fiskveiðiára, verði frumvarpið að lögum.
Jafnræði ekki náð fyrir núverandi kerfi
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að afnám svæðaskiptingar aflaheimilda hafi verið í gildi í fjögur veiðitímabil. Með fyrirhugaðri lagasetningu sé áformað að auka jafnræði milli landsvæða.
„Fyrsta árið eftir breytingu, þ.e. 2019, stóðu strandveiðar út tímabilið, þ.e. til ágústloka. Árið 2020 voru strandveiðar stöðvaðar 19. ágúst og árið 2021 voru þær stöðvaðar 18. ágúst, þ.e. þá voru aflaheimildir fullnýttar. Á árinu 2022 voru strandveiðar stöðvaðar síðari hluta júlí. Fiskgengd á grunnslóð við Ísland er nokkuð mismunandi milli landshluta yfir sumarmán- uðina, þ.e. á strandveiðitímabilinu. Á það bæði við um magn og gæði (stærð fisks). Þegar horft er til strandveiðitímabilsins maí‒ágúst er suðvestursvæðið best fyrri hluta tímabilsins meðan norðaustursvæðið og Austfirðir er best síðari hluta tímabilsins. Komi til þess að strandveiðar séu stöðvaðar bitnar það mest á norðaustur- og austursvæðinu. Það fyrirkomulag sem ákveðið var með gildandi lögum hefur ekki reynst vel þegar litið er til jafnræðissjónarmiða þar sem afnám svæðaskiptingar aflaheimilda við strandveiðar hefur haft neikvæð áhrif á veiðar á Norðaustur- og Austurlandi,“ segir í greinargerðinni.
LS á móti breytingunum
Þessi áform hafa mætt andstöðu, meðal annars hjá Landssambandi smábátaeigenda og til þess er vísað í greinargerðinni.
„Landssamband smábátaeigenda er á móti breytingunum og önnur minni samtök smábátaeigenda. Þessir aðilar telja þetta almennt vera neikvætt skref aftur á bak til þess tíma þegar ólympískar veiðar voru stundaðar á landsvísu og skapi aukna slysahættu og hafi önnur neikvæð áhrif á aðstæður til strandveiða. Aðrir sem skiluðu umsögnum telja almennt að breytingarnar séu til bóta og muni bæta skilyrði til strandveiða í þeim landshluta. Ráðuneytið telur að þessi breyting leiði ekki til meiri áhættusækni við veiðar frá því sem nú er. Þá bendir ráðuneytið á að hvatar til svokallaðra ólympískra veiða hafi ekki horfið með lagabreytingu sem gerð var með lögum nr. 22/2019, heldur hafi þeir breyst. Eftir stendur að breytingarnar hafa haft neikvæð áhrif á byggðajafnræði, sérstaklega á Norður- og Austurlandi og því telur ráðuneytið, í ljósi markmiða laga nr. 116/2006, nauðsynlegt að bregðast við,“ segir ennfremur í greinargerðinni með frumvarpsdrögunum.
Sem fyrr segir verður opið fyrir umsagnir um frumvarpsdrögin í samráðsgátt stjórnavalda til 15. febrúar næstkomandi.
Deila: