Fundað um uppsjávarveiðar í London

180
Deila:

Þessa dagana standa yfir í London viðræður strandríkja um veiðistjórnun á makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld. Samtímis fara fram viðræður Færeyinga og Breta um fiskveiðiheimildir á næsta ári.

Í frétt frá sjávarútvegsráðuneyti Færeyja, kemur fram að helstu málin séu skipting aflaheimilda milli ríkjanna til langs tíma og að ákveða leyfilegan heildarafla í hverri tegund fyrir næsta ár.

Auk þess verða skipaðir hópar vísindamanna til að safna saman öllum fyrirliggjandi tölfræðilegum gögnum um veiðar og rannsóknir úr sameiginlegum  leiðöngrum í makríl og kolmunna eins og gert sé í síldinni. Niðurstöður úr þessum leiðöngrum verða nýttar til að ákveða hámarksafla af báðum tegundunum og skiptingu til langs tíma milli ríkjanna.  

Tvíhliðaviðræðum Breta og Færeyinga er lokið og var niðurstaðan að hafa framlengja samninga þessa árs til þess næsta. Þá munu Bretar og Færeyingar ræða um skipti á veiðiheimildum í uppsjávarfiski eftir miðjan nóvember.  

Deila: