Fylltar kolarúllur

318
Deila:

Nú dekrum við aðeins við okkur, reyndar er það ekkert nýtt, og fáum okkur yndislegar kolarúllur fylltar með krabbakjöti. Í réttinn má nota rauðsprettu, sólkola, smálúðu eða hvaða annan flatfisk sem í boði er. Þennan fisk má nálgast í öllum alvöru fiskbúðum og krabbakjötið fæst víða niðursoðið í dós. Annars er fínt að nota rækju í staðinn eða líka. Svo það er ekkert annað en að kaupa fiskinn og meðlæti í næstu innkaupaferð, þar sem að sjálfsögu er gætt fyllstu varúðar vegna Covid-17. Við hlíðum Víði.

Innihald:

4 kolaflök um 200g hvert, roð- og beinlaus

1 msk. ólífuolía

1 miðlungs laukur, smátt saxaður

2 hvítlauksgeirar, marðir

Um 220g krabbakjöt úr dós eða eða rækjur eftirsmekk

3 msk. rjómaostur

1 tsk. sítrónupipar

Salt og pipar

2 msk. graslaukur, fínt saxaður.

Sítrónusmjörsósa

2 msk. smjör

2 msk. ferskur sítrónusafi

Aðferðin:

Forhitið ofninn í 190°C

Hitið ólífuolíu á góðri pönnu og stillið á meðalhita. Setjið saxaðan laukinn út á og mýkið þar til að byrjar að brúnast. Bætið þá hvítauknum út á og síðan krabbakjötinu eða rækjunum, rjómaostinum, sítrónupiparnum, salti og pipar og söxuðum graslauknum út á og látið allt krauma smávegis og hrærið vel saman.

Leggið kolaflökin á skurðarbretti með roðhliðina niður og snyrtið ef þörf er á. Smyrjið síða krabbablöndunni jafnt yfir

Rúllið flökunum upp og ef þörf er á má nota tannstöngla til að halda rúllunum saman. Leggið þær í eldfasta smurt fat og kryddið smávegis og dreifið því sem eftir kann að vera af krabbablöndunni yfir.

Bræðið smjörið í litlum potti og hrærið sítrónusafann vel saman við það. Hellið smávegis af sósunni síðan yfir rúllurnar

Bakið rúllurnar í ofninum í 20 til 25 mínútur eftir þykkt flakanna

Berið rúllurnar fram með sósunni og sítrónusneiðum, hrísgrjónum og fersku salati að eigin vali.

 

Deila: