Fyrsta makríl vertíðarinnar landað

85
Deila:

Snemma í morgun kom Börkur NK til Neskaupstaðar með fyrsta makrílfarm vertíðarinnar. Aflinn var 320 tonn og var hann örlítið síldarblandaður. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig honum litist á upphaf vertíðar.

„Þetta fer afar hægt af stað. Fiskurinn er seint á ferðinni enda má segja að nú fyrst sé að vora almennilega í hafinu hér við landið. Hitastigið er komið í 9 gráður á Þórsbankanum núna en þar fékkst þessi fiskur. Aflinn sem við komum með kemur frá þremur skipum; Berki, Beiti og Vilhelm Þorsteinssyni. Eins og í fyrra munu skipin sem landa makríl hjá Síldarvinnslunni hafa samstarf um veiðarnar en slíkt samstarf gekk vel í fyrra. Það er fiskur þarna en hann er mjög dreifður. Skipin voru gjarnan að fá um 40 tonn í holi. Fiskurinn er hins vegar fínn, stór og fallegur. Þegar við fórum í land héldu hin skipin austur í Smuguna. Menn gera sér vonir um að þar sé meira að fá auk þess sem það verður skítaveður suður og suðaustur af landinu næstu daga. Við trúum því að makríllinn eigi eftir að skila sér inn í íslenska lögsögu. Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Við erum spenntir fyrir framhaldinu og munum fara út strax að löndun lokinni,“ segir Hjörvar.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, segir að það sé afar gott að fá þennan makrílfarm til að prófa allan vélbúnað og sjá hvort allt virki ekki eins og það á að gera. „Við erum tilbúin í vertíðina og viljum bara fá meira,“ segir Jón Gunnar.

Deila: