Gat á kví við Vattarnes – ekki að sjá að fiskur hafi sloppið

Deila:

Matvælastofnun barst tilkynning frá Löxum Fiskeldi fimmtudaginn 20. janúar um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Laxa við Vattarnes í Reyðarfirði.

Gatið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit með kvíum á stöðinni og virkjaði fyrirtækið viðbragðsáætlun sína strax og er viðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Laxa var gatið á um 7 m dýpi og reyndist vera um það bil 50×15 cm að stærð. Í þessari tilteknu kví eru um 145.000 laxar með meðalþyngd 2,6 kg.

Laxar lögðu út net í takt við viðbragsáætlun og tilkynntu Matvælastofnun, Fiskistofu og Fjarðarbyggð um atburðinn strax. Netanna verður vitjað í fyrramálið. Starfsmaður Matvælastofnunar er á svæðinu og hefur skoðað viðbrögð fyrirtækisins og hafið rannsókn á málinu.

Fiskistofa vitjaði netanna 21. janúar og reyndist enginn fiskur í netunum. Í framhaldi voru netin tekin upp að beiðni Fiskistofu. Matvælastofnun fyrirskipaði að kafað yrði í allar kvíar á eldissvæðinu Vattarnesi og að köfunarskýrslum yrði skilað til stofnunarinnar. Ekkert reyndist athugavert við aðrar kvíar á svæðinu.

Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun árétta að fiskur á eldissvæðinu Vattarnesi í Reyðarfirði er ekki sýktur af Blóðþorra. Öll eldissvæði á Austfjörðum eru undir reglubundnu eftirliti með áherslu á skimanir gegn ISA veirunni.

Deila: