„Gekk bara vel að fiska“

97
Deila:

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í morgun að lokinni fyrstu veiðiferð eftir mánaðarlangt sumarfrí. Afli skipsins er rúm 97 tonn og er hann blandaður. Frystihúsið á Seyðisfirði mun hefja vinnslu á föstudagsmorgun en það hefur verið lokað vegna sumarleyfa allan júlímánuð.

Heimasíða  Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst hvort ekki væri gott að komast á sjóinn á ný. „Jú, það er alveg ágætt. Það var töluvert unnið í skipinu á meðan á fríinu stóð og mikið málað og snyrt. Þá var sett krapavél í skipið og var hún notuð í fyrsta sinn í þessum túr. Margir halda því fram að krapinn henti betur en venjulegur skelís og víst er að tilkoma krapavélarinnar gerir vinnuna miklu auðveldari. Menn losna við ísmoksturinn. Í þessum túr veiddum við á Stokksnesgrunni og í Hornafjarðardýpinu og enduðum svo túrinn úti á Fæti. Það gekk bara vel að fiska,“ segir Þórhallur.

Gullver mun halda á ný til veiða klukkan átta í kvöld.

 

Deila: