Gengi hlutabréfa í Eimskipi í sögulegu hámarki

Deila:

Hlutabréfaverð Eimskips hækkaði um 5,5 prósent í Kauphöllinni í dag og er gengi bréfanna komið aftur í sögulegt hámark eins og gerðist í lok apríl. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu.

Að sögn viðmælenda Innherja á verðbréfamarkaði má rekja verðhækkun Eimskips til afkomuviðvörunar sem flutningarisinn Maersk sendi út í gær. Maersk hefur í tvígang hækkað afkomuspána fyrir árið 2022, fyrst úr 24 milljörðum Bandaríkjadala upp í 30 milljarða, og síðan upp í 37 milljarða dali í gær.

„Stífla alþjóðlegra aðfangakeðja, sem hefur leitt til hærri flutningsgjalda, hefur varað lengur en áður var gert ráð fyrir,“ sagði í afkomuviðvörun Maersk. Ný afkomuspá gerir ráð fyrir að flutningar komist smám saman í eðlilegt horf á fjórða ársfjórðungi en áður hafði flutningarisinn spáð að það myndi gerast snemma á seinni árshelmingi.

Í byrjun júlí tilkynnti Eimskip að EBITDA – rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta – væri áætlaður á bilinu 43,5 – 47 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi samanborið við 29,7 milljónir evra á sama fjórðungi í fyrra. Í kjölfarið hækkaði hlutabréfaverð félagsins um 16 prósent á tveimur dögum.

Uppgjör annars fjórðungs hjá Eimskip verður birt 18. ágúst næstkomandi.

Eftir hækkun dagsins í dag í tæplega 290 milljóna króna veltu stendur gengi Eimskips í 575 krónum á hlut og því hefur 25 prósenta lækkun frá því í lok apríl – þá hafði hlutabréfaverð skipafélagsins aldrei verið hærra – gengið til baka. Markaðsvirði félagsins nemur nú rétt tæplega 100 milljörðum króna.

Samherji er langsamlega stærsti hluthafi Eimskips með um þriðjungshlut.

 

Deila: