Gengið verr að fá góðan afla

125
Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK lét úr höfn í Reykjavík um miðja vikuna eftir stutt löndunarstopp í Reykjavík. Skipstjórinn, Friðleifur Einarsson (Leifur), segir að stefnt sé á Vestfjarðamið en þar var skipið að veiðum í síðustu veiðiferð.

,,Þetta er búinn að vera þó nokkur barningur síðustu daga. Það hefur gengið verr að fá góðan afla og það hefur þurft að hafa fyrir hlutunum. Við vorum með um 125 tonn í síðasta túr og við erum ánægðir með það miðað við aðstæður,” segir Leifur í samtali á heimasíðu Brims, en hann tekur sérstaklega fram að leitun sé að ufsa og þorski fyrir vestan nú um stundir og þá sé ekki karfatími.

Leifur segist hafa hafið veiðar í Víkurálnum.

,,Þar fengum við dálítið af ufsa og svo fengum við 20 tonn af gullkarfa og það að næturlagi. Það kom verulega á óvart.”

Að sögn Leifs var einnig farið í Þverálinn og þvælst um kantinn en alls staðar fékkst minna en vonir stóðu til. Veðrið hefur verið fremur rysjótt að undanförnu og það er því ekki skrýtið að veðurspár beri á góma.

,,Maður, biddu fyrir þér. Spárnar nú og það sem var tekið gott og gilt á sínum tíma eru ekki sambærilegar. Hér áður fyrr gátu menn átt von á öllu en nú er hending ef veðurspárnar ganga ekki fullkomlega eftir,” segir Friðleifur Einarsson.

Deila: