-->

Gengur eins og í lygasögu

Skipverjar á Kristrúnu RE 177 komu í land síðastliðinn þriðjudag með góðan afla af línunni, eins og aðra þriðjudaga á árinu. Pétur Karl Karlsson stýrimaður og skipstjóri og áhöfnin nýtur nú dagsins og fær svolítið sumarfrí áður en haldið verður á grálálúðunet í sumar.
„Við erum um 10 mánuði á línu á ári og tvo mánuði á grálúðu yfir sumarið. Svona hefur þetta verið í um fimm ár og við erum eina skipið sem stundar grálúðuveiðar í net og frystir allar afurðir um borð, hausa, sporða og allt. Þetta eru allt verðmæti sem við fullvinnum fyrir erlenda markaði rétt eins og frystitogararnir. Þetta er mjög skemmtilegur veiðiskapur, sem við byrjuðum á fyrir nokkrum árum og við vorum fljótir að yfirstíga byrjunarerfiðleika, bæði í vinnslu og veiðum. Þetta hefur hreinlega gengið ens og í lygasögu með grálúðuna. Við erum mest við þessar veiðar við Kolbeinsey og vestur á Hala. Við höfum líka tekið einn túr austur í Seyðisfjarðardýpið. Við erum með netin ansi djúpt á þessu, 250 niður á 450 faðma en það er ekkert mál að draga þó djúpt sé,“ segir Pétur í viðtali við kvotinn.is.
Á línunni eru þeir svo á ísfiski
„Á veturna erum við í þorski, ýsu, keilu og löngu á línunni. Við erum að fiska um 450 tonn af löngu og 430 af keilu enda með góðan kvóta af þessum tegundum. Við erum því svolítið mikið úti í köntunum með línuna. Það er svo minna af ýsu og nú erum við með um 1.250 tonna þorskkvóta. Línufiskurinn fer ísaður í vinnslu í landi hjá Fiskkaupum, sem gera Kristrúnu út. Þetta hefur gengið afskaplega vel. Við erum búnir með kvótann og förum nú í smá sumarfrí, en svo taka grálúðunetin við í endaðan júní og við verðum á þeim út ágúst.
Við veiðum eiginlega eftir ákveðnu kerfi á línunni. Förum út á þriðjudögum og komnir inn aftur á þriðjudögum. Oftast erum við með á bilinu 60 til 80 tonn eftir vikuna og það er bara fínt, góð afkoma. Það reyndar farið að dragast svolítið saman þegar kemur fram á vorið og nú skiptum við út 260 tonnum af þorski fyrir grálúðuna í sumar. Við höfum líka verið að taka blálöngu, sem er utan kvóta. Reyndar er lítið af henni núna. Hún gengur í 10 ára sveiflum segja gömlu mennirnir og fyrir tveimur þremur árum síðan var toppur í veiðinni. Það lítið vitað hvað veldur þessum sveiflum.
Við erum 14 á línunni og 16 á netunum. Á netunum er bara unnið á einni vakt. Við byrjum snemma á morgnana og á þokkalegum degi er dregið til átta á kvöldin og svo er bara hvíld yfir nóttina. Á línunni er hins vegar lagt á nóttunni og svo er dregið í þrjár vaktir. Það tekur fjóra og hálfan til fimm tíma að leggja línuna, sem er 38.000 krókar og svo er bara farið á endann og dregið í 18 klukkutíma. Það er mikil törn á línuveiðum og þær aðeins fyrir fullfríska menn. Þetta er mikil vinna. Svona rúllar þetta allan túrinn og gengur mjög vel, enda skipið gott og hörku karlar um borð.
Fiskurinn er svo unninn hjá Fiskafurðum í landi, ýmst í salt eða fersk flök, eftir því hvernig markaðarnir standa hverju sinni,“ segir Pétur Karl Karlsson.