Gera loðnuklárt í Eyjum

512
Deila:

Ef loðnuskip eru ekki á annað borð komin á sjó þá er verið að gera þau klár í veiðar þessar klukkustundirnar. Það á við í Vestmannaeyjum sem víðar en á meðfylgjandi mynd sem tekin var í gær er verið að taka loðnunótina um borð í Suðurey VE. Í frétt frá Ísfélaginu segir að áhöfnin á Dala-Rafni muni færa sig yfir á Suðurey meðan loðnuveiðar ganga yfir.

Sömuleiðis er verið að undirbúa loðnuvertíð hjá Vinnslustöðinni. Í frétt frá fyrirtækinu segir að samanlögð hlutdeild Vinnslustöðvarinnar og Hugins í heildarkvóta loðnu verði 21 þúsund tonn en hún jókst um 5000 tonn með aukningu loðnukvótans á dögunum. Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar segir að loðnan þurfi að ná 13-14% hrognafyllingu til að vera í fullnægjandi ástandi til frystingar en hann fagnar aukningu loðnukvótans.

„Það hefur mikið að segja að fá þessa viðbót. Menn biðu spenntir eftir tíðindunum frá Hafró. Flestir töldu að einhverju yrði bætt við leyfilegan heildarafla, aðrir voru á því að aflaráðgjöfin yrði óbreytt en þeir svartsýnu bjuggust við skerðingu. Sem betur fer varð niðurstaðan sú að að bæta í veiðina,“ segir Sindri í frétt á vsv.is

 

Deila: