-->

Gjaldtaka af nýtingu auðlinda

Eftirfarandi grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi birtist í dag á heimasíðu samtakanna:

Í kosningaumræðu liðinna daga hefur nokkuð verið rætt um gjaldtöku af nýtingu auðlinda. Umræðunni ber að fagna, enda er hún grundvöllur þess að kjósendur þekki hvernig gjaldtöku er háttað í dag og hvernig henni muni verða háttað til framtíðar. Það er mikilvægt að horft verði til þess að grunnstoðir atvinnulífs á Íslandi eru blessunarlega fleiri en bara sjávarútvegur. Sú krafa er eðlileg að stjórnvöld móti heildstæða stefnu varðandi greiðslu fyrir aðgang að öllum auðlindum landsins, m.a. orku, náttúru og fiskistofnum.

Skortur á fyrirsjáanleika er slæmur

Sjávarútvegur hefur greitt veiðigjald frá árinu 2004. Á tímabilinu 2009-2015 voru greiddir 45 milljarðar króna, á föstu verðlagi ársins 2015, í veiðigjald til ríkisins. Samdráttur í hagnaði vegna reksturs árið 2014 leiddi til þess að gjaldstofn til veiðigjalds vegna fiskveiðiársins 2016/2017 lækkaði. Á sama tíma hefur afkoma margra sjávarútvegsfyrirtækja verið góð og hafa því vaknað spurningar um hvers vegna veiðigjald sé ekki hærra. Skýringuna er hins vegar ekki að finna í stefnu einstakra stjórnmálaflokka, heldur í þeirri staðreynd að veiðigjald er reiknað eftir á og þær tölur sem liggja til grundvallar veiðigjaldi fiskveiðiársins 2016/2017 eru frá árinu 2014. Árið 2013 var afkoma af fiskveiðum góð, en hún lækkaði hins vegar um 13 milljarða króna árið 2014. Veiðigjald lækkaði þess vegna nokkuð á milli fiskveiðiáranna 2015/2016 og 2016/2017.

 

Fiskveiðiár Álagt veiðigjald Gögn í reiknigrunn
Áætlað 2017/2018 8,0-9,0 ma.kr. 2015
Áætlað 2016/2017 5,0 ma.kr. 2014
Áætlað 2015/2016 7,8 ma.kr. 2013
2014/2015 7,7 ma.kr. 2012
2013/2014 9,2 ma.kr. 2011
2012/2013 12,8 ma.kr. 2010

 

SFS hefur ítrekað bent á að í reiknigrunn veiðigjaldsins eru notaðar ríflega tveggja ára gamlar upplýsingar. Þær ná því ekki að endurspegla miklar breytingar sem geta orðið á skömmum tíma í sjávarútvegi. Þetta gerir allar áætlanir í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja erfiðari. Lægra veiðigjald fiskveiðiárið 2016/2017 er birtingarmynd þess að afkoma og álagt veiðigjald helst ekki vel í hendur.

Innheimt veiðigjald mun hækka

Ljóst er að árið 2015 var almennt betra í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja en árið 2014. Betri afkoma fer þar með inn í reiknigrunn veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017/2018, líkt og greina má af töflu, og mun veiðigjald því verða töluvert hærra en árið áður. SFS áætlar að veiðigjald fiskveiðiárið 2017/2018 muni nema um 8-9 milljörðum króna. Á þeim tíma kunna horfur í greininni hins vegar að vera aðrar en þær voru á því ári sem reiknigrunnur veiðigjaldsins tekur mið af. Styrking krónunnar og fall breska pundsins hafa nú þegar veruleg áhrif á afkomu íslensks sjávarútvegs. Þannig stefnir í að íslenska krónan verði um 10% sterkari árið 2016 en hún var árið 2015. Í dæmaskyni má nefna að ef meðalgengi krónunnar árið 2015 hefði verið sambærilegt meðalgengi hennar það sem af er árinu 2016 hefði útflutningur sjávarafurða verið um 26 milljörðum króna lægri en raunin var árið 2015. Sýnir þetta glögglega hversu mikilvægt er að til grundvallar veiðigjaldi liggi afkoma fyrirtækja á þeim tíma sem gjaldið kemur til greiðslu.

Meðalhóf og alþjóðleg samkeppni

Mikilvægt er að ígrunda vel forsendur gjaldtöku af auðlindum. Hvað sjávarútveg varðar verður að líta til samkeppnishæfni hans á alþjóðlegum mörkuðum og gæta þarf meðalhófs. Í þessu samhengi má m.a. nefna að í Noregi eru hvorki innheimt veiðigjöld né hafnargjöld, auk þess sem launatengd gjöld þar í landi eru lægri. Í Færeyjum og á Grænlandi greiða sjómenn hluta veiðigjalds á móti útgerðum. Rétt er að huga sérstaklega að þáttum sem þessum þegar rætt er um sérstaka gjaldtöku í íslenskum sjávarútvegi. Verði veiðigjöld úr hófi mun það draga úr þrótti íslenskra fyrirtækja í samkeppni á erlendum mörkuðum. Af því leiðir að tekjur þeirra munu lækka og minni fjármunir munu að endingu skila sér til samfélagsins.

Nú þegar líður að kosningum er mikilvægt að þeir sem bjóða fram krafta sína til starfa á Alþingi þekki grundvallarforsendur að baki veiðigjaldi.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Byrjaði 14 ára sem hálfdrættingur á...

Hann sleit barnsskónum í Flatey á Breiðafirði, en síðan lá leiðin suður á togara. Á sjónum var hann í 50 ár. Nú slakar hann ...

thumbnail
hover

Ekkert sérstaklega erfitt, bara misjafnlega skemmtilegt

Maður vikunnar byrjaði að vinna í fiski um páskafrí þegar hann var á fjórtánda ári. Áhuginn tók svo kipp, þegar hann var 16 á...

thumbnail
hover

Byrjaði 13 ára á skaki

Maður vikunnar er frá Suðureyri við Súgandafjörð. Hann var 44 ár til sjós. Fyrst á skaki síðan bátum og loks skuttogurum. Salta...