-->

Glæsileg sjávarútvegssýning í Laugardalshöll í haust

Mjög vel gengur að leigja sýningarbása á ICELAND FISHING EXPO 2016 / SJÁVARÚTVEGUR 2016 og vissara að bóka rými í tíma. Allar nánari upplýsingar veitir Ólafur M. Jóhannesson, framkvæmdastjóri sýningarinnar (olafur@kvotinn.is) sem sér um innlenda aðila. Einnig Inga hjá Athygli sem sér líka um sölu auglýsinga í veglegt sýningarrit, (sími 898 8022 og inga@athygli.is) og Tinna hjá Iceland Travel sem sér um erlenda markaðinn (sími 897 9797 og tinna@icelandtravel.is).

Sjávarútvegssýningin ICELAND FISHING EXPO 2016 / SJÁVARÚTVEGUR 2016 verður haldin dagana 28.-30. september í Laugardalshöllinni. Undirbúningur sýningarinnar hefur staðið yfir í næstum tvö ár og hefur fjöldi fyrirtækja af öllum stærðum tekið frá sýningarsvæði. Ólafur M. Jóhannesson, framkvæmdastjóri sýningarinnar segir að það stefni í stóran atburð innan sjávarútvegsins í Laugardalshöllinni.

„Mitt fyrirtæki, Ritsýn sf., hefur staðið fyrir ráðstefnum og sýningum af fjölbreyttum toga undanfarin 19 ár. Höfum meðal annars verið með öflugar sýningar fyrir hótel- og mötuneytisgeirann frá 2005 og haldið fjölmargar heilsutengdar sýningar svo fátt eitt sé talið. Æ fleiri fyrirtæki og stofnanir hafa leitað til okkar með hugmyndir að nýjum sýningum og ráðstefnum. Hugmyndin um sjávarútvegssýningu kviknaði þegar hópur fyrirtækja leitaði til okkar með þetta verkefni sem nú er að verða að veruleika,“ segir Ólafur um tilurð sýningarinnar.

Besta sýningarhöllin

Á veglegri opnunarhátíð sýningarinnar miðvikudaginn 28. september verða veittar viðurkenningar til aðila er þykja hafa staðið sig vel innan sjávarútvegsgeirans. Eftirfarandi samtök innan sjávarútvegsins, sem jafnframt eru stuðningsaðilar sýningarinnar, munu veita viðurkenningarnar: Sjómannasamband Íslands, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssamband smábátaeigenda, VM, félag vélstjóra- og málmtæknimanna, SFÚ, samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, Íslenski sjávarklasinn og Konur í sjávarútvegi. „Við kunnum ákaflega vel að meta stuðning þessara samtaka við sýninguna sem sýnir þá breidd sem hún spannar,“ segir Ólafur. Hann segir að Laugardalshöllin hafi orðið fyrir valinu af ýmsum ástæðum. „Hún er eina íþróttamiðstöðin sem er sérhönnuð sem sýningarhúsnæði og því auðvelt að stýra þar lýsingu, hljóðvist og loftræstingu. Þá eru næg bílastæði í kringum höllina sem er afar mikilvægt.“

Margir samstarfsaðilar

„Svona stór sýning er ekki möguleg nema í samvinnu fjölmargra fagaðila. Þannig verða Sýningarkerfi, sem hafa starfað í 30 ár, með góð tilboð á sýningarkerfum, Sýningarljós eru með allan búnað fyrir rafmagn, Athygli almannatengsl verður með öfluga kynningu hér heima og erlendis og Iceland Travel annast skipulag skráningar og fleiri þætti sýningarinnar svo nokkrir séu nefndir. Við leggjum afar mikið upp úr að kynna sýninguna bæði hér heima og erlendis, bæði í fagmiðlum greinarinnar og almennum fjölmiðlum. Auk markvissrar kynningar hér heima verður lögð áhersla á kynningu erlendis, m.a. á sjávarútvegssýningunni í Brussel, dagana 26.-28. apríl auk þess sem fyrirtæki á helstu markaðssvæðum íslensks sjávarútvegs fá reglulega sendar upplýsingar á næstu vikum og mánuðum.“

Ómissandi fyrir sjávarútveginn

„Leiga sýningarbása stendur nú sem hæst og hefur mjög fjölbreyttur hópur fyrirtækja skráð sig til leiks sem endurspegla vel þá miklu grósku sem er í íslenskum sjávarútvegi. Við munum hefja leikinn með opnunarhátíð miðvikudaginn 28. september en svo verður sýningin opin frá kl. 10:00-18:00 á fimmtudegi og föstudegi. Þetta verður fagleg, létt og skemmtileg sýning þar sem verður rekið glæsilegt fiskiveitingahús á pöllunum milli sýningarsvæða sem mun koma á óvart. Á þessari sýningu í haust hittast allir í geiranum, sem skiptir ekki litlu máli á tölvuöld þegar flest samskipti eru orðin um dauðan tölvuskjáinn. Slíkt örvar viðskipti og mannlífsflóran dafnar,“ segir Ólafur að lokum og er rokinn á næsta fund.

 

Comments are closed.