Góð afkoma Síldarvinnslunnar

193
Deila:

Á aðalfundi Síldarvinnslunnar kom þar fram að afkoma félagsins var góð á árinu 2020. Nam hagnaður ársins 5,3 milljörðum króna. Stjórn félagsins var endurkjörin á fundinum en eftirtaldir eiga sæti í henni sem aðalmenn: Anna Guðmundsdóttir, Björk Þórarinsdóttir, Guðmundur Rafnkell Gíslason, Ingi Jóhann Guðmundsson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Varamenn eru þau Arna Bryndís Baldvins McClure og Halldór Jónasson.

Á fundinum var samþykkt að greiða ekki arð af afkomu ársins 2020 en hagnaðurinn verði færður til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé.

Síldarvinnslan stefnir á skráningu félagsins á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. hinn 27. maí nk. og í ljósi þess samþykkti aðalfundurinn að boðað yrði til hluthafafundar í félaginu fyrir lok júnímánaðar þar sem meðal annars yrði kjörin ný stjórn.

Fram kom að þegar Síldarvinnslan hefði verið skráð á hlutabréfamarkað yrði það eina félagið úti á landi á þeim markaði. Það má því segja að skráning félagsins á markaðinn feli í sér afgerandi tímamót.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður, greindi frá því að rétt 20 ár væru liðin frá því að hann var fyrst kjörinn í stjórn Síldarvinnslunnar. Síðan sagði hann: „Það eru forréttindi að fá að hafa verið þátttakandi í rekstri fyrirtækis eins og Síldarvinnslunnar í tuttugu ár. Þrátt fyrir að oft hafi blásið á móti, eins og gerist og mun gerast áfram í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, hefur reksturinn gengið vel.“

Þá vakti Þorsteinn sérstaka athygli á því að Síldarvinnslan yrði eina fyrirtækið á landsbyggðinni sem skráð yrði á markaði eftir að skráning hefði farið fram síðar í þessum mánuði. Benti hann á að fyrirtæki í Neskaupstað ætti alls ekki minna erindi við almenning en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Þá lagði hann áherslu á að þær hefðir sem skapast hefðu í kringum fyrirtækið í Neskaupstað hefðu ávallt verið virtar og hann treysti því að svo yrði áfram.

 

Deila: