Góð vara sem selur sig sjálf

Deila:

Stjörnufiskur er gamalgróin harðfiskvinnsla í Grindavík. Þorlákur Halldórsson keypti hana fyrir þremur árum og hefur stækkað húsnæðið um helming og aukið framleiðsluna verulega.

„Við tókum við góðu búi í Stjörnufiski. Pétur Gíslason og Guðrún Bjarnadóttir voru búin að skapa sér mjög gott nafn í harðfiskvinnslu og sölu. Ég fékk þannig mjög góðan markað upp í hendurnar og mjög góða vöru. Okkur hefur hefur tekist að viðhalda því og ef eitthvað er að betrumbæta framleiðsluna. Við höfum stækkað verkunina um helming og aukið framleiðsluna sömuleiðis um helming, en höfum ennþá ekki náð að framleiða allt sem við gætum selt. Það má kalla það góðærisvandamál,“ segir Þorlákur.

Framleiðsla Stjörnufisks hefur farið vaxandi síðustu árin og er harðfiskurinn seldur innanlands og í Færeyjum. Þorlákur Halldórsson keypti verkunina fyrir þremur árum og er að færa út kvíarnar.

Megnið fer á markað innanlands

„Þetta er það góð vara að hún hefur að segja má selt sig sjálf og við höfum ekki náð að anna allri eftirspurn. Sá sem kaupir harðfisk frá Stjörnufiski, kaupir alltaf aftur. Við höfum því ekki þurft að hafa mikið fyrir sölunni. Megnið af framleiðslunni fer á markað innan lands, en seljum töluvert til Færeyja og vorum að selja aðeins til Noregs. Við hættum því þar sem það gekk ekki sem skyldi. Ég var með íslenskan millilið í því og það virðist ekki vera gott. Hugurinn stefnir á að auka framleiðsluna og selja meira út, en það gengur ekki alveg upp því ef við sendum meira út eins og staðan er núna, verðum við að láta aðra á innanlandsmarkaðnum svelta og það gengur ekki.“

Þorlákur segir það ganga mjög misjafnlega að fá gott og rétt hráefni í vinnsluna. Nú, frá upphafi kvótaársins, hafi einfaldlega gengið illa að fá hráefni og gríðarlegar verðhækkanir á fiski á fiskmörkuðunum, hverju sem það sæti. „Maður gerir sér ekki almennilega grein fyrir því hvers vegna verðið hefur hækkað um 30 til 40% á síðustu sex mánuðum. Þetta er meira en flestir skilja og komið upp fyrir kaupgetu langflestra verkana sem eru að verka fisk. Auðvitað er gott fyrir sjómenn og útgerð að fá gott verð, en það þarf að vera á því róli að allir geti rekið sig á réttum grundvelli.

Hráefnið keypt á fiskmörkuðum

Við kaupum nánast allt hráefni á fiskmörkuðunum. Við veljum ákveðnar stærðir af fiski í verkunina og mjög lítið af slíkum fiski kemur á bátinn  okkar. Við kaupum bara línufisk og einstöku sinnum af handfærabátunum. Gæðin verða að vera óskaplega góð og mestu gæðin á fiskmörkuðunum er þessi línufiskur. Við höfum prufað annað, en það gengur bara ekki upp. Við erum því að kaupa dýrasta og besta hráefnið, en það er grunnurinn að því að geta skilað einstakri gæðavöru til neytenda,“ segir Þorlákur.

3. Guðni Már Þorsteinsson sér um daglegan rekstur Stjörnufisks en átta manns starfa við framleiðsluna.

 

Deila: