Góður gangur í fiskeldinu

98
Deila:

Almennt má segja að fiskeldi á Íslandi hafi gengið vel á árinu 2019. Veruleg framleiðsluaukning varð bæði í laxeldi og bleikjueldi. Markaðsaðstæður voru einnig ákjósanlegar lengst af ársins, sem einkenndist af góðri eftirspurn og háu verði. Þetta kemur fram í rafrænni ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Laxeldi hér á landi tvöfaldaðist árið 2019 frá árinu á undan. Alls nam framleiðslan um 27.000 tonnum. Þetta er rífleg þreföldun frá árinu 2016, en það ár tók framleiðslan mikinn kipp. Frá árinu 2012 til 2015 nam ársframleiðslan að jafnaði um 3.000 tonnum. Laxeldi hér á landi fer að langmestu leyti fram í sjókvíum. Landeldi á laxi á sér þó alllanga sögu hérlendis og hefur að jafnaði numið um 1.000 til 1.200 tonnum á ári.

Svipaða sögu má segja af bleikjuframleiðslu í fyrra. Segja má að undanfarinn áratug hafi hún vaxið jafnt og þétt. Síðustu árin nam vöxturinn að jafnaði um 500 tonnum á ári, en aukningin á milli áranna 2018 og 2019 nam 1.500 tonnum. Staða íslenskrar bleikjuframleiðslu á alþjóðlegum mörkuðum er sterk og er langstærsti hluti heimsframleiðslunnar hér á landi. Það er því ljóst að breytingar á framleiðslumagni á íslenskri bleikju hefur veruleg áhrif á markaðinn

Vegna hinnar stöðugu aukningar í heildarframleiðslu í fiskeldi hér á landi, einkanlega vegna vaxandi laxeldis, er atvinnugreinin orðin umtalsverður þáttur í útflutningi frá Íslandi. Útflutningsverðmæti fiskeldis frá Íslandi nam á síðasta ári um 25 milljörðum króna. Það er rífleg fimmföldun á útflutningsverðmætum á föstu gengi frá árinu 2014, sem endurspeglar þann mikla vöxt sem hefur verið í þessari atvinnugrein undanfarin árin. Mest munar auðvitað um aukningu í laxeldi. Nam útflutningsverðmæti eldislax ríflega 16 milljörðum króna á árinu 2019, að frjóvguðum laxahrognum undanskildum, sem er rífleg tvöföldun á verðmætum frá 2018, á föstu gengi. Útflutningsverðmæti bleikju nam ríflega 5 milljörðum króna og jókst um rúm 34% frá árinu 2018.

Til þess að setja þetta í samhengi, má benda á að útflutningsverðmæti eldisafurða á árinu 2019 var tæp 10% af útflutningsverðmætum sjávarafurða. Það hlutfall hefur aldrei verið svo hátt. Hlutdeild eldisafurða fer upp í 50% sé einungis miðað við útflutningsverðmæti uppsjávarafurða, það er loðnu, makríls, síldar og kolmunna.

 

Deila: