Góður gangur í strandveiðum

Deila:

Strandveiðar hafa gengið nokkuð vel á fyrri hluta júlímánaðar. Leyfilegir veiðidagar hafa verið níu með gærdeginum. Aflinn fyrstu tvær vikurnar nú er 1.704 tonn, en á sama tímabili í fyrra var aflinn 1.149 tonn. Það sem af er strandveiðitímabilinu er aflinn 6.551 tonn, sem er 981 tonni meira en í fyrra.

Mestur er aflinn á fyrri hluta júlímánaðar á svæði A, 804 tonn sem er mikil aukning frá sama tíma í fyrra, þegar aflinn var aðeins 476. Bátarnir eru nú 225 en voru 198 í fyrra og landanir 1.130 á móti 659 í fyrra og gerir það gæfumuninn í aflabrögðunum. Nú er afli á bát 3.573 kíló að meðaltali en var 2.404 tonn í fyrra.

Á svæði B er aflinn nú 398 tonn á móti 242 tonnum í fyrra. Bátarnir eru nú 123, 24 fleiri en í fyrra. Róðrum hefur fjölgað verulega en landanir nú eru 596, en voru aðeins 361 á sama tíma í fyrra. Afli á bát að meðaltali er nú 3.234 kíló, en var 2.444 kíló í fyrra.

Svæði C er eina svæðið þar sem afli hefur ekki aukist frá því í fyrra þrátt fyrir að bátum hafi fjölgað úr 102 í 110. Landanir nú eru 387, sem er 25 færri en í fyrra. Afli á bát að meðaltali er nú 2.410 kíló en var í fyrra 2.716  kíló.

135 bátar hafa nú landað afla á svæði D. Það er 18 fleiri en í fyrra. Landanir eru 398, en voru 243 á sama tíma í fyrra. Aflinn á svæðinu er nú 237 tonn en var 154 tonn á sama tíma í fyrra. Afli á bát er að meðaltali 1.757 kíló en var í fyrra 1.316.

Deila: