Góður þorskur fyrir norðan

92
Deila:

,,Þetta er hálf slakt hjá okkur þessa stundina. Við erum hér til að veiða þorsk og það vantar ekki að þorskurinn er góður og vel á sig kominn hér fyrir norðan. Við höfum stytt túrana og ætli aflinn nú séu ekki um 135 tonn. Þetta er svo til allt þorskur. Við erum með smávegis af grálúðu og svo lifur. Alls er afli því í 430 körum.”

Þetta segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE í samtali á heimasíðu Brims í gær. Þá  var Viðey á leið inn Skagafjörðinn en fyrirhugað var að landa aflanum á Sauðárkróki.

Það er í nógu að snúast fyrir áhafnir ísfisktogaranna Viðeyjar og Akureyjar AK þessa dagana því togararnir einir sjá um hráefnisöflun fyrir fiskvinnsluna í fiskiðjuverinu á Norðurgarði á meðan þriðji ísfisktogarinn, Helga María AK, er í slipp.

,,Ég hef mest verið hér norður á hrauni, sem svo er kallað, en það er fyrir norðan Kolbeinsey og í um 120 mílna fjarlægð frá Sauðárkróki,” segir Elli en hann kveður að enn sé nóg af fiski á Vestfjarðamiðum.
,,Vegna þessa tímabundna ástands höfum við orðið að stytta túrana. Það eru langar siglingar frá Vestfjarðamiðum til Reykjavíkur og því var betra fyrir okkur að vera hér fyrir norðan, landa á Sauðárkróki og láta aflann fara landleiðina til Reykjavíkur,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli).
Gert var ráð fyrir að löndun tæki um fimm tíma og því ætti togarinn að hafa farið aftur á miðin síðastliðna nótt.

Deila: