Gömlu varðskipin seld

Deila:

Söguleg tímamót urðu hjá Landhelgisgæslu Íslands í gær þegar formlega var gengið frá sölu varðskipanna Týs og Ægis og þau afhent nýjum eiganda. Afsal vegna sölu skipanna var undirritað á skrifstofu Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð og að undirritun lokinni fór fram virðuleg kveðjuathöfn um borð í Ægi og Tý við Sundahöfn.

Fyrrverandi skipverjar drógu skutfánann niður á meðan starfsmenn Landhelgisgæslunnar stóðu heiðursvörð. Georg Kr. Lárusson, forstjóri, tók við fána Ægis og Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, tók við fána Týs. Þar með lauk áratuga farsælli sögu skipanna í þágu íslensku þjóðarinnar.
Varðskipið Ægir var smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1968 og var í rekstri Landhelgisgæslunnar til ársins 2015. Ægir tók þátt í 50 og 200 mílna þorskastríðunum og áhöfn hans beitti togvíraklippunum frægu á breskan togara í fyrsta sinn þann 5. september árið 1972.
Varðskipið Týr var afhent Landhelgisgæslu Íslands í mars árið 1975 og kom mikið við sögu í 200 mílna þorskastríðinu þar sem það klippti á togvíra fjölda togara, bæði breskra og þýskra. Skipið fór nær alveg á hliðina þegar breska freigátan Falmouth sigldi tvívegis á Tý og laskaði hann verulega.
Áhafnir beggja skipa tóku þátt í fjölmörgum eftirminnilegum björgunarsfrekum. Ægis og Týs bíður nú nýtt hlutverk og óhætt er að segja að þau hafi reynst hin mestu happafley.
https://youtu.be/4MjxQlShtC0

 

 

Deila: