-->

Grásleppan í góðum gír í Skagafirði

Víða hefur verið óvenju góð veiði á yfirstandandi grásleppuvertíð, til dæmis í Skagafirði. Steindór Árnason, trillukarl á Sauðárkróki, segir að mikil veiði kunni að vega upp á móti umtalsverðri lækkun fyrir grásleppuna frá fyrra ári en hins vegar geti of mikil veiði leitt til offramboðs á mörkuðum sem aftur kunni að koma í bakið á mönnum á næsta ári.

„Síðustu árin hef ég verið trillukarl að atvinnu en ég var áður til margra ára á togurum, síðast á Málmeynni í um tíu ár. Á hverju ári fékk ég frí á vorin til þess að fara á grásleppu. Það má segja að ég sé alin upp við grásleppuveiðar. Líklega var ég fimmtán ára gamall þegar ég eignaðist fyrstu trilluna og síðan má segja að ég hafi alltaf átt trillu. Það eru ekki margar grásleppuvertíðir sem ég hef misst af síðan ég var strákur og í fjöldamörg ár hefur ekki dottið út ein einasta vertíð. Verð á grásleppuhrognum var orðið prýðilega gott og þegar við bættust strandveiðarnar var hægt að hafa afkomu af trilluútgerð,“ segir Steindór Árnason.

Óvenju mikið af loðnu í Skagafirði
Sjö bátar hafa verið gerðir út á grásleppuveiðar í Skagafirði á þessari vertíð. Steindór segir að framanaf hafi veiðarnar gengið mjög vel enda tíðarfarið með eindæmum gott. Og aflinn var eftir því sérlega góður og segist Steindór ekki minnast svo mikillar veiði í mörg undanfarin ár. Erfitt sé að ráða í hvað valdi þessari góðu veiði, en almennt sé greinilegt að lífríkið sé mjög líflegt um þessar mundir, mikil fiskgengd og óvenju mikið um bæði sel og hnísur. „Það er erfitt að ráða í skýringun á svo mikilli veiði hérna á þessu vori en ég vil þó halda því fram að það hafi tengst óvenju mikilli loðnugengd í firðinum, það má segja að seinnipart vetrar og í vor hafi fjörðurinn verið fullur af loðnu. Og ég tel mig sjá tengingu þarna á milli, það er að segja að mikilli loðnu fylgi mikil grásleppa.“

Miklar sveiflur í hrognaverði
Eins og fram kom í fréttum í mars varð töluvert verðfall á grásleppunni miðað við síðasta ár og verðið var þá ekkert til þess að hrópa húrra yfir. Núna eru borgaðar um 150 krónur fyrir kílóið af grásleppunni upp úr sjó en um 200 krónur í fyrra. Grásleppunni er landað beint á bíla þegar grásleppukarlarnir koma að landi og kaupendur sjá síðan um að verka hrognin. Það er af sem áður var þegar trillukarlarnir sáu sjálfir um að salta hrognin í tunnur. Nú eru líklega yfir 90% af grásleppunni sem er veidd verkuð af kaupendum en ekki veiðimönnunum. „Mér hefur fundist heldur vera að síga á ógæfuhliðina í markaðsmálunum. Við söltuðum alltaf sjálfir og seldum síðan tunnurnar en þetta hefur breyst. Núna sjá kaupendur um verkunina og ég er ekki sannfærður um að það sé gott fyrirkomulag fyrir okkur, ég er ekki frá því að þetta hafi leitt til verðlækkunar á hrognunum. Vissulega hafa Grænlendingar komið í auknum mæli inn á markaðinn á undanförnum árum og það hefur sitt að segja en hins vegar má segja að þeir hafi komið inn á markaðinn í stað veiðanna við Nýfundnaland, sem hafa lagst af. Veiðarnar hjá okkur hafa gengið mjög vel núna í vor, það virðist vera óvenju mikið af grásleppu núna. En ljósið af þessari góðu veiði getur auðveldlega dofnað hratt ef veiðarnar verða það miklar að við lendum í offramboði sem mögulega gæti leitt til enn meira verðfalls á næsta ári. Reyndar hafa í gegnum tíðina alltaf verið miklar sveiflur í þessu en vonandi tekst að koma á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Gallinn er hins vegar sá að markaður fyrir grásleppuhrogn hefur verið að minnka aðeins og það hjálpar ekki. Fyrir tíu til fimmtán árum var heimsmarkaðurinn í hrognum um 30 þúsund tunnur en núna er hann kominn niður í 21-22 þúsund tunnur.“

Vertíðarstemning á grásleppunni
Hvað sem líður bollaleggingum um verð á grásleppuhrognum segir Steindór að þessi veiðiskapur sé alltaf jafn skemmtilegur, þetta sé ákveðin vertíðarstemning. Grásleppan haldi sig að stærstum hluta á sama svæði í Skagafirðinum frá ári til árs en þó séu alltaf einhverjar breytingar á hegðunarmynstri grásleppunnar. Fyrir ekki löngu hafi grásleppa verið merkt í Skagafirði með merkjum frá Biopol á Skagaströnd og það hafi komið mjög á óvart að tveimur vikum síðar kom þessi sama grásleppa fram vestur í Breiðafirði eða austur á Vopnafirði. Samkvæmt þessu fari grásleppan vítt um en haldi sig ekki lengi á sömu slóðinni, eins og menn hafi talið.
„Hér í Skagafirði er helsta veiðislóðin í grásleppunni frá Reykjum á Reykjaströnd og norður undir Hraun á Skaga. Við erum því fyrst og fremst í vestanverðum Skagafirðinum og reyndar kemur grásleppan einnig upp að Málmey en ég veit ekki til þess að hún hafi veiðst mikið innarlega austan megin í firðinum. Í gamla daga veiddist grásleppan hins vegar innundir Krók. Hér áður fyrr mátti veiða grásleppu á þessu svæði frá 10. mars og fram í júní. Núna lögðum við netin 26. mars og það má segja að þá hafi netin hreinlega stíflast, svo mikið var komið af grásleppunni. Við förum yfirleitt út snemma á morgnana og reynum að miða við að vera komnir í höfn fyrir kvöldmat. Þetta er auðvitað mikil vinna en maður leggur þetta að sjálfsögðu á sig enda er maður að taka stóran hluta árslaunanna á grásleppuvertíðinni. Án hennar væri maður ekkert að standa í þessari útgerð. Það er ekki hægt að byggja útgerð á leigukvótakerfinu. Það kemur oft fyrir að maður fær minna fyrir fiskinn en sem nemur leiguverðinu á fiskinum. Það segir sig því sjálft að slíkt kerfi gengur ekki upp. Ég er með um 120 grásleppunet í sjó og þau liggja frá einum og upp í þrjá daga. Þessi mikla veiði á þessu vori vegur sennilega upp lægra verð en í fyrra en á móti kemur að við getum lent í offramboði á hrognum sem kann að koma í bakið á okkur á næsta ári.“

Byggðakvótinn farinn
Steindór segir að fyrst og fremst hafi hann haft afkomu af grásleppuvertíðinni á vorin og strandveiðunum á sumrin, en til viðbótar hafi hann leigt til sín heimildir og róið fram á haustið. Síðustu ár hafi trillukarlar í Skagafirði einnig veitt byggðakvóta en nú sé búið að taka hann af og það geti breytt ansi miklu og í einhverjum tilfellum kippt fótunum undan þessum rekstri. Steindór segist vera í hópi þeirra trillukarla sem þurfi að gera það upp við sig í haust, að loknum strandveiðunum, hvort dæmið gangi hreinlega upp eftir að byggðakvótinn var tekinn af. Stór hluti teknanna komi af grásleppuveiðunum og ef um sé að ræða offramboð á hrognum geti það haft alvarleg áhrif til hins verra á næstu grásleppuvertíð með tilheyrandi verðfalli.

 

 

 

Comments are closed.