Gratínerað góðmeti

167
Deila:

Nú höldum við góð veislu og gratínerum sjávarafurðir. Gerum vel við okkur og notum humar, hlýsjávarrækju og þorsk. Þetta er virkilega flottur veislumatur, hollur og braggóður. Fyrir rómantískt kvöld fyrir elskendur á öllum aldri er bara að helminga uppskriftina og hafa kertaljós og Harry Belafonte til reiðu með matnum. Kannski að yngra fólkið kjósi aðra tónlist.

Innihald:

2 bollar fiskisoð
1 bolli rjómi
½ bolli hvítvín og 3 msk. hvítvín hvort í sínu lagi
3 msk. tómatpúrra
400g hrá hlýsjávarrækja skelflett og garnhreinsuð
300g þorskur roð- og beinlaus skorinn í teninga
300g humar, skelflettur og garnhreinsaður
5 msk. ósaltað smjör í tvennu lagi
1 msk. hveiti
1 tsk. salt
½ tsk. pipar
2 bollar þunnt skorinn blaðlaukur bæði hvíti og græni hlutinn
1 bolli rifnar gulrætur
½ bolli brauðmylsna
1 bolli rifinn parmesan ostur
1 msk. fersk steinselja, söxuð
3 hvítlauksgeirar, marðir

Aðferð:

Blandið saman fiskisoði, rjóma, hvítvíni og tómatpúrru í potti. Látið suðuna koma upp og lækkið síðan hitann og látið síðan krauma smávegis. Setjið þorskbitana út í og látið sjóða í 1-3 mínútur. Veiðið fiskinn þá upp með fiskispaða og leggið í skál til hliðar. Þá fara rækjurnar og humarinn út í suðan látin koma upp á ný. Þá eru rækjurnar og humarinn veidd upp og sett í sömu skál og þorskurinn.

Látið sósuna síðan sjóða niður um helming. Hrærið þá hveiti og 1 msk. af smjöri saman í skál. Hrærið þá hveiti bollunni út í sósuna þannig að hún verði hæfilega þykk og leggið til hliðar.

Bræðið þá 3 msk. af smjöri í potti bætið blaðlauknum og gulrótunum í í og látið krauma í 5 mínútur. Bætið þá 3 msk. af hvítvíni út í og látið malla í 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar.

Setjið fiskmetið í eldfast mót og hellið rjómasósunni og grænmetinu yfir og látið blandast vel. Dreifið ostinum jafnt yfir. Bakið síðan í ofni þar til rétturinn er orðinn fallega gullinn að ofan.

Berið fram með ristuðu brauði, hrísgrjónum og salati að eigin vali.

Deila: