Greið upplýsingamiðlun er brýnt umhverfismál

„Umhverfismál eru okkur hjá Eimskip hugleikin og við leggjum áherslu á þau í okkar daglega starfi. Frá árinu 2014 höfum við hjá Eimskip unnið í nánu samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Klappir grænar lausnir að því að innleiða rafrænar skipadagbækur í daglegri starfsemi okkar en almennt eru slíkar dagbækur á pappírsformi. Rafrænar skipadagbækur gera okkur kleift að skrá olíunotkun, sorplosun og margvíslegar upplýsingar um staðsetningu og ferðaferil hvers skips á stafrænan hátt. Um leið getum við sett okkur markmið til að draga enn frekar úr kolefnisfótsporinu okkar.“

Svo segir í færslu á heimasíðu Eimskips og segir þar ennfremur:

„Íslenska ríkið sýndi ákveðið fordæmi þegar Umhverfisstofnun heimilaði notkun á rafrænum dagbókum Klappa árið 2018 og við erum stolt af því að hafa riðið á vaðið og vera nú á meðal fyrstu flutningafyrirtækja í heiminum sem nota rafrænar skipadagbækur.

Í dag skrá áhafnir okkar allar upplýsingar bæði rafrænt og líka á pappírsformi þar sem alþjóðasamfélagið hefur ekki enn alls staðar samþykkt rafrænar dagbækur. Við vonumst þó til þess að rafrænar dagbækur verði samþykktar af yfirvöldum um allan heim sem fyrst og að útbreiðsla þeirra á heimsvísu verði hröð og markviss.

Áður fyrr strandaði ógrynni dýrmætra gagna á pappírsformi í skipunum og nýttist ekki í landi við að taka upplýstar ákvarðanir um reksturinn. Það er liðin tíð og nú geta áhafnir skipa og stjórnendur í landi nýtt og metið dýrmætar upplýsingar í rauntíma. Þetta leiðir til skynsamlegri ákvarðana í rekstri skipanna okkar og nýtingu auðlinda, svo sem olíueyðslu.
Samskipti skipa í höfnum við skrifstofur Eimskips hafa aldrei verið greiðari og þægilegri en nú. Gögnin streyma einfaldlega á milli skips og skrifstofu í gegnum gagnaský. Þá geta skipin okkar svarað ýmsum lögbundnum upplýsingakröfum, svo sem hvað snertir ECA-svæðin (e. emission control area) þar sem gilda hertar losunarreglur, og fylgst er nákvæmlega með eldsneytisnotkun í umhverfislögsögu Íslands og losun í höfnum.

Svara kröfum alþjóðlegra stofnana

Með rafrænu dagbókunum gerum við jafnframt nákvæmar ferðaskýrslur sem við notum til að svara kröfum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðasiglingamálastofnunar og Evrópusambandsins um umhverfismál skipanna. Þá draga rafrænu skipadagbækurnar úr pappírsnotkun og stuðla að nákvæmari skráningu gagna, enda staðla dagbækurnar verklag og tryggja að ýtrasta samræmis sé gætt. Loks getum við fylgst betur með kolefnisfótspori okkar en fótspor Eimskips hefur dregist saman um 16% á flutta einingu frá árinu 2015.

Greið upplýsingamiðlun er brýnt umhverfismál og við leggjum okkur fram við að nýta þá einstöku stafrænu upplýsingatækni sem þróuð hefur verið á síðustu árum til að draga úr vistsporinu og bæta reksturinn.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Litun á laxholdi með náttúrulegum Litarefnum

Lokið er AVS verkefninu „Litun á Laxholdi með náttúrulegum Litarefnum“ og hefur lokaskýrsla verkefnisins nú verið gefin út. ...

thumbnail
hover

Gott úthald rannsóknaskipanna

Þrátt fyrir mjög krefjandi ytri aðstæður vegna Covid faraldursins hafa rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar komist í alla rannsókna...

thumbnail
hover

Samstaðan er okkar sterkasta vopn

Þorlákur Halldórsson, fráfarandi formaður Landssambands smábátaeigenda brýnir félaga sína til samstöðu gegn frumvörpum sjávar...