-->

Gríðarlegur niðurskurður lagður til í humarkvótanum

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að afli ársins 2019 verði ekki meiri en 235 tonn svo fylgjast megi með stærðarsamsetningu og dreifingu stofnsins. Jafnframt leggur stofnunin til að allar humarveiðar verði bannaðar í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar uppvaxandi humri. Til að minnka álag á humarslóð ráðleggur Hafrannsóknastofnun einnig til að veiðar með fiskibotnvörpu verði bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi.

Afli tvöfaldaðist frá árinu 2004 til ársins 2010 þegar hann náði 2500 tonnum. Síðan hefur aflinn minnkað og var 728 tonn árið 2018, sem er minnsti afli frá upphafi veiða árið 1957. Sókn í stofninn hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2009 en afli á sóknareiningu er nú í sögulegu lágmarki. Útgefið aflamark hefur ekki náðst síðustu tvö fiskveiðiár. Humar er alfarið veiddur í humarvörpu. Miðað er við heilan humar upp úr sjó.

Þéttleiki humarholna við Ísland (0.07 holur/m2) mælist nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið veitir ráðgjöf fyrir. Samkvæmt eldri stofnmatsaðferð (VPA), sem beitt var til mats á afrakstursgetu humarstofnsins, er stofnstærð 2019 metin einungis um þriðjungar af gátmörkum (Bpa). Lengdarmælingar úr afla og stofnmælingum benda einnig til nýliðunarbrests á undanförnum árum. Veiðar á 235 tonnum árið 2019 ættu að gefa mynd af útbreiðslu og stærðarsamsetningu stofnsins. Hafrannsóknastofnun mun leita eftir auknu samstarfi við útgerðir um vöktun á humarstofninum, t.d. með sýnatökum og skipulagi veiða.

Stofnmatið í ár er byggt er á stofnmælingu þar sem humarholur eru taldar með neðansjávarmyndavélum og er það í þriðja sinn sem slík stofnmæling er framkvæmd. Stofnmælingin er talin ná utan um öll þau svæði þar sem humar finnst í veiðanlegu magni. Meðalþyngd humra (130 g) er mjög há í sögulegu samhengi og skýrist að mestu af þeim nýliðunarbresti sem verið hefur í humarstofninum undanfarin ár og af því leiðir þessi aukna hlutdeild eldri humars í afla.

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Það gefur á bátinn

„Útflutningur á sjávarafurðum hefur dregist verulega saman það sem af er ári, borið saman við sama tímabil í fyrra. Samdráttin...

thumbnail
hover

Venus í vélarupptekt

Vinna er hafin við reglubundna upptekt á aðalvél uppsjárveiðiskipsins Venusar NS og er verkið unnið í Reykjavík. Venus kom til Rey...

thumbnail
hover

Háafell fær leyfi til aukins eldis

Matvælastofnun hefur veitt Háafelli ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi í samræmi við lög um fiskeldi. Matvælasto...